Flugmiðarnir líka endurgreiddir með Netgíró

Í fréttatilkynningu Netgíró segir að öll þjónusta eða þær vörur …
Í fréttatilkynningu Netgíró segir að öll þjónusta eða þær vörur sem greiddar eru með Netgíró, falli undir lög um neytendavernd. Skjáskot af vefsíðu Netgíró

Komi til rekstrarstöðvunar flugrekenda eiga þeir ferðalangar sem greiddu fyrir flugmiðann með netgíró rétt á endurgreiðslu, ekki síður en þeir sem greiða miðann með kreditkorti.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Netgíró sendi frá sér í dag, en greint var frá því í síðustu viku að réttindi þeirra sem greiði flugmiða með netgíró væru ekki alveg skýr ef það kæmi til gjaldþrots flugfélaga.

Í fréttatilkynningu Netgíró segir að öll þjónusta eða þær vörur sem greiddar eru með Netgíró, falli undir lög um neytendavernd. Það þýði í raun að viðskiptavinir Netgíró fái endurgreitt, sé sú vara eða sú þjónusta sem þeir hafa greitt fyrir, ekki afhent. 

Þetta sé niðurstaða lögfræðiálita sem fyrirtækið lét vinna.

„Við vildum vera sannfærð og tryggja rétt okkar viðskiptavina og eyða öllum vafa um lagalega óvissu sem hefur ríkt í þessu máli. Við hjá Netgíró óskuðum því eftir fleiri en einu lögfræðiáliti og á meðan þessi álit lágu ekki fyrir vildum við ekki fullyrða neitt sem við gætum ekki staðið við, en nú hefur þessari óvissu verið eytt. Réttur neytenda er fullkomnlega tryggður með greiðslum með netgíró,“ er haft eftir Helga Birni Kristinssyni, framkvæmdastjóra Netgíró.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka