„Það er mjög einkennilegt að sjá þetta,“ segir Gils Jóhannsson sem var misboðið vegna fjölda sofandi ferðafólks í Leifsstöð þegar hann kom til landsins eftir utanlandsferð seint í gærkvöldi. „Þetta á ekki að vera gistiheimili,“ segir Gils í samtali við mbl.is, en hann sagði frá reynslu sinni á Facebook og deildi myndum.
Á ljósmyndunum sést fjöldi ferðafólks, sumt í svefnpokum, sem lagst hafði til svefns í brottfararsal Keflavíkurflugvallar. Gils segist hafa talið á annan tug fólks sem svaf þar á gólfinu, en þegar hann ræddi við starfsmann sagði sá að ástandið væri ekki svo slæmt.
Nærföt sem lögð höfðu verið til þerris á ofn vöktu sérstaka athygli Gils, en í samtali við mbl.is segir hann mögulegt að um sundfatnað hafi verið að ræða, en það sé alveg sama hvort heldur væri.
Fjölmiðlafulltrúi Isavia, Guðjón Helgason, segir að samkvæmt húsreglum flugstöðvarinnar sé fólki bannað að búa sér þar náttstað. Unnið sé út frá því að koma öllum á fætur áður en innritun í fyrstu flug hefst á milli kl. 3 og 3:30.
„Þá er gestum bent á að heppilegra sé að kynna sér aðra gistimöguleika í nágrenninu. Það er erfitt viðureignar að koma alfarið í veg fyrir að farþegar gisti í flugstöðvum og er þetta vel þekkt viðfangsefni á flugvöllum víða um heim. Rétt er þó að geta þess að minna hefur verið um þetta í sumar samanborið við síðustu ár.“