Veðurstofan varar við afar slæmri veðurspá í kvöld og getur vindur hæglega farið í 30-40 metra í hviðum. Hætta er á foktjóni á Suðurlandi, Faxaflóa og Snæfellsnesi ef ekki er gengið vel frá hlutunum.
Í kvöld er útlit fyrir hvassviðri með vætu um vestanvert landið og á miðhálendinu. Hviður geta hæglega farið yfir 30 m/s við fjöll og nálægt 40 m/s á norðanverðu hálendinu. Þetta er varasamt veður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og létta tengivagna, svo og útivistarfólk og tjaldbúa sem hyggja á dvöl á hálendinu.
„Núna í morgunsárið liggur lægð við Hvarf og sendir hún okkur veik skil upp úr hádegi með vaxandi suðlægri átt og vætu um vestanvert landið í dag. Í kvöld koma önnur skil frá henni og eru þau öllu hraustlegri, en spáð er stífri sunnan- og suðaustanátt með þeim og rigningu, þar af talsverðri rigningu sunnan og suðaustan til í nótt og í fyrramálið (föstudag). Hviður við fjöll geta farið upp í 30 m/s og jafnvel 40 m/s á hálendinu. Gular viðvaranir eru í gildi og er fólki bent á þær. Það er ekki útlit fyrir að þessi lægð slái nein met en hún getur engu að síður haft áhrif ef aðgát er ekki höfð, t.d. hjá tjaldferðalöngum, bílum með aftanívagna og fólki með trampólín og laus garðhúsgögn í nærumhverfi sínu.
Í nótt frysti víða á landinu, enda hægur vindur og víða léttskýjað. Næstu nótt er ekki útlit fyrir að hiti fari undir frostmark, en með lækkandi sólu má eðlilega gera ráð fyrir að þetta gerist aftur og aftur á næstu vikum enda ekki mikið eftir af sumrinu.
Á morgun og á laugardag stefnir í suðvestanstrekking og skúri eða rigningu sunnan- og vestanlands en annars hægari vind og bjartara veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Hæg suðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en lítils háttar væta suðaustan til. Vaxandi suðaustanátt með morgninum og þykknar upp með vætu, víða 10-18 m/s undir kvöld og rigning en hægari vindur norðaustanlands og þurrt. Hiti 7 til 13 stig. Talsverð rigning sunnan og suðaustan til í nótt og fyrramálið.
Snýst í sunnan og suðvestan 8-13 á morgun með skúrum um landið sunnan- og vestanvert, en úrkomulítið annars staðar. Hiti 9 til 15 stig.
Á föstudag:
Suðaustan 10-18 m/s árla dags og talsverð rigning, einkum SA-lands. Síðan suðvestan 8-13 með skúrum, en léttir til N- og A-lands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á NA-horninu.
Á laugardag:
Suðvestan 8-15 m/s og rigning eða skúrir, en bjartviðri NA- og A-til. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast á A-landi.
Á sunnudag:
Vestlæg eða breytileg átt, víða 3-8 m/s en strekkingur syðst. Væta um landið vestanvert, en bjartviðri að mestu A-lands. Hiti 7 til 12 stig.
Á mánudag:
Suðlæg átt og fer að rigna S- og V-lands þegar líður á daginn, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hiti breytist lítið.
Á þriðjudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt og víða væta með köflum. Hiti 7 til 13 stig.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðlæga átt með dálítilli úrkomu fyrir norðan og kólnandi veðri, en bjart með köflum syðra.