Alvarlegt slys varð í Steinsholtsá við Þórsmörk um hálfþrjúleytið í dag, en þar var tilkynnt um bíl í ánni. Erlend hjón voru í bílnum sem sat fastur. Maðurinn náði að koma sér úr bílnum og á þurrt en konan féll í ána.
Konan var illa haldin, meðvitundarlaus og óvíst er um framhaldið, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli. Þyrla Landhelgisgæslunnar flytur konuna til Reykjavíkur.
Lögregla, björgunarsveitir, sjúkralið og þyrla Landhelgisgæslunnar komu á slysstað ásamt skálavörðum úr Þórsmörk, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.
Fréttin verður uppfærð.