„Börnin verja miklum tíma í skólanum. Því teljum við mikilvægt að finna leiðir til að bæta líðan barna meðan þau dvelja í þar sem og að kenna þeim leiðir til að takast á við mótlæti og erfiðleika núna og seinna í lífinu.“ Þetta segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis.
Embætti landlæknis efndi til ráðstefnu á Hótel Nordica í morgun sem ber yfirskriftina „Jákvæð menntun í heilsueflandi skólastarfi“. Umfjöllunarefnin Battle Against Boredom, Jákvæð menntun – sjónarhorn stjórnanda og Núvitund fyrir börn og unglinga eru einungis brot af fræðslunni sem boðið var upp á í morgun.
Um 300 manns fylltu ráðstefnuna og voru þátttakendur aðallega starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla ásamt starfsfólki frá sveitarfélögum og háskólum.
Innlendir og erlendir sérfræðingar í málaflokknum héldu erindi fyrir hádegi um hvað skyldi stuðla að bættri andlegri heilsu barna í skólakerfinu. Eftir hádegi var síðan boðið upp á vinnustofur þar sem gestir tóku þátt í kennslunni. Þar fóru m.a. fram núvitundaræfingar, æfingar í að sporna við leiða og afdrifaríkar námsaðferðir.
Á fyrirlestrunum komu fram ýmsar leiðir til þess að bæta líðan nemenda. T.a.m. þarf að leggja áherslu á styrkleika einstaklingsins og hvata sem styðja við jákvæða upplifun í náminu. Í jákvæðri menntun er unnið með öllu skólasamfélaginu að því að þjálfa nemendur í eiginleikum sem rannsóknir hafa sýnt að auki vellíðan. Má þar nefna þjálfun í þrautseigju, þannig að þau geti tekist á við mótlæti og erfiðleika á uppbyggilegan hátt sem og þjálfun í núvitund, að vera meira til staðar í núinu og finna sátt við það sem ekki er hægt að breyta.
Velferð er ein af grunnstoðum menntunar, að sögn Dóru, en hugmyndafræðin á bak við jákvæða menntun er að vellíðan barna sé jafnmikilvæg og að læra hinar hefðbundnu námsgreinar.
„Íslensk börn hafa það að mörgu leyti mjög gott en þó er hópur barna sem hefur það ekki eins gott“, segir Dóra. Eitt af hlutverkum Embættis landlæknis er að gefa út lýðheilsuvísa og í nýjustu útgáfu af lýðheilsuvísum eru vísbendingar sem gefa til kynna að unga fólkið sé ekki eins hamingjusamt og áður. Þar kemur einnig fram að um 10% skólabarna líður ekki vel í skólanum og að of hátt hlutfall barna nær ekki nægum svefni.
Embætti landlæknis hefur áður efnt til sambærilegra ráðstefna en mun þessi vera sú fyrsta þar sem öll skólastigin koma saman. Dóra er vongóð um að þátttakendur ráðstefnunnar fái innblástur á ráðstefnunni til að vinna áfram með hugmyndirnar, sem þar komu fram, í sínu skólaumhverfi.
„Við erum afar þakklát fyrir þann mikla áhuga og þá góðu þátttöku sem við erum að sjá hér í dag, þar sem það er fullt á ráðstefnuna. Það er dýrmætt að sjá að þeir sem hafa áhuga á heilsueflingu í skólastarfi gefi sér tíma frá þéttri dagskrá til að kynna sér jákvæða menntun,“ segir Dóra.