Björn Bjarnason leiðir starfshóp um EES

Björn Bjarnason hefur verið skipaður formaður starfshóps sem mun vinna …
Björn Bjarnason hefur verið skipaður formaður starfshóps sem mun vinna á skýrslu um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp sem vinna á skýrslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og mun Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, vera formaður hópsins, að því er kemur fram á vef stjórnarráðsins. Þar segir að bæði sé „tímabært og nauðsynlegt að ráðast í ítarlega úttekt á aðild Íslands að EES“.

Ástæða skipun hópsins er sögð vera sú að á „næsta ári verður aldarfjórðungur liðinn frá gildistöku EES-samningsins. Jafnframt eru framundan þáttaskil í Evrópusamvinnunni þar sem til stendur að aðildarríki gangi úr ESB í fyrsta sinn“.

Björn mun bera almenna ábyrgð á skipulagi verkefnisins og er talsmaður hópsins gagnvart stjórnvöldum. Þá munu tveir aðrir einnig vera í starfshópnum og er það annarsvegar Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og hinsvegar Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og erindreki um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar.

Hópurinn hefur 12 mánuði til þess að skila af sér skýrslu og mun hafa einn starfsmann með aðsetur í utanríkisráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert