„Erum algjörlega í lausu lofti“

Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð er skýstrókarnir …
Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð er skýstrókarnir fóru yfir Norðurhjáleigu. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

„Það hring­ir eng­in í okk­ur og eng­in hef­ur áhuga á að skoða þetta eða meta neitt,“ seg­ir Sæ­unn Kára­dótt­ir, bóndi í Norður­hjá­leigu í Álfta­veri við Kúðafljót. Skýstrók­ar fóru yfir bæ­inn síðasta föstu­dag og ollu veru­legu tjóni þótt stillt veður væri á bæj­un­um í kring. Stór jeppi með kerru þeytt­ist út í skurð, þak­plöt­ur fuku fleiri hundruð metra og girðing­ar lögðust á hliðina.

Vá­trygg­inga­fé­lag þeirra hjóna bæt­ir ekki tjónið þar sem þau voru ekki með fok­trygg­ingu og í gær funduðu Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar Íslands (NTÍ) um mál Norður­hjá­leigu. Fyrr í vik­unni sagði Hulda Ragn­heiður Árna­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri NTÍ, í sam­tali við mbl.is að laga­breyt­ing­ar þyrfti við svo NTÍ bætti tjónið. Fund­ur­inn í gær virðist staðfesta það. „Þau hringdu bæði og sendu tölvu­póst til okk­ar, en það kom s.s. ekk­ert nýtt fram þar,“ seg­ir Sæ­unn. Lög­in væru svona og ekk­ert hægt að gera.

Sveit­ar­stjórn Skaft­ár­hrepps fundaði einnig um málið í gær og fer hún fram á að al­manna­trygg­inga­kerfið taki til end­ur­skoðunar skil­grein­ingu á því hvað telst til nátt­úru­ham­fara. Fer hún fram á að bænd­ur Norður­hjá­leigu fái tjónið bætt og ætl­ar að senda al­manna­trygg­ing­um og for­sæt­is­ráðherra bréf um að þörf sé á að end­ur­skoða skil­yrði fyr­ir bót­um úr NTÍ.

Ef þetta eru ekki nátt­úru­ham­far­ir hvað þá?

Sæ­unn seg­ir þau óneit­an­lega sátt við viðbrögð sveit­ar­stjórn­ar og þau finni líka fyr­ir mikl­um stuðningi í sveit­inni. „All­ir sem maður hitt­ir spyrja líka: „Ef þetta eru ekki nátt­úru­ham­far­ir, hvað þá?“ Maður trygg­ir sig fyr­ir venju­legu roki, en þetta er bara eitt­hvað allt annað.“

Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir. Skemmdir …
Þök fuku af sjö hús­um er skýstrók­arn­ir fóru yfir. Skemmd­ir hafa svo verið að koma í ljós á fleiri hús­um. Ljós­mynd/​Sæ­unn Kára­dótt­ir

Spurð hvort þau séu far­in að meta tjónið seg­ir hún svo ekki vera. „Við erum ekk­ert far­in að reikna út kostnað eða annað slíkt, en við erum alltaf að sjá meira og meira hvað hef­ur skemmst.“ Þannig hafi komið í ljós að sum hús þurfi jafn­vel að rífa og skemmd­ir hafi leynst á hús­um sem þökin fóru ekki af. „Þetta var eitt­hvað sem sást ekki strax,“ bæt­ir hún við.

Þau eru ekki held­ur far­in að loka þeim hús­um sem þau geta notað áfram, þó að haustið nálg­ist óðfluga. „Við þorum ekki að byrja því við vit­um ekki hvort að það ætl­ar ein­hver að koma og meta þetta tjón,“ seg­ir Sæ­unn. „Það hring­ir eng­inn í okk­ur og eng­in hef­ur áhuga á að skoða þetta eða meta neitt svo­leiðis. Þannig að við erum al­gjör­lega í lausu lofti með þetta.“

Það þurfi hins veg­ar að ganga frá ýms­um hús­um, bæði að loka þökum eða þá rífa þau, en áður þurfi þau helst að fá staðfest­ingu á hvað þau megi gera.

„Okk­ur lang­ar auðvitað að nýta þenn­an litla tíma sem við höf­um í þetta, en þegar maður veit ekki hvað má rífa niður eða laga þá erum við al­gjör­lega stopp.“

Von­ast eft­ir svör­um frá Veður­stof­unni

Blaðamaður nefn­ir við Sæ­unni að hún virðist hafa tekið ham­förun­um af aðdá­un­ar­verðri ró. „Við erum bara þannig mann­eskj­ur að það sést ekki utan á okk­ur,“ seg­ir hún. „Þetta er samt auðvitað sjokk og tek­ur á.“

Í leit sinni eft­ir aðstoð sendu þau líka tölvu­póst á bjargráðasjóð og barst svar frá sjóðnum í gær. „Við feng­um það svar að ef við get­um sannað að þetta sé ekki eitt­hvað sem hægt sé að tryggja fyr­ir þá geti þeir tekið þetta til at­hug­un­ar,“ seg­ir Sæ­unn.

Næsta mál á dag­skrá er því að sjá hver niðurstaða Veður­stofu Íslands verður, en sér­fræðing­ar frá Veður­stof­unni fóru í vett­vangs­ferð að Norður­hjá­leigu á þriðju­dag til að átta sig á krafti og stærð skýstrók­anna. „Þeir ætluðu að vera í í sam­bandi við okk­ur,“ seg­ir Sæ­unn og kveður vænt­an­lega taka tíma að skoða þetta. „Ég vona svo að þau geti bent á að þetta var ekki eitt­hvað venju­legt rok, held­ur eitt­hvað allt annað.“

„Spurð hvort að hún sé bjart­sýn að aðstoð fari að fást, seg­ir hún til­finn­ing­ar sín­ar vera beggja blands. „Ég vona það besta, en býst kannski við því versta. Þetta er þannig mál að það veit eng­inn hvað hann á að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert