Heilsugæslan fái greitt fyrir bólusetningar

Bólusetningum barna á aldrinum 12 mánaða til 4 ára hefur …
Bólusetningum barna á aldrinum 12 mánaða til 4 ára hefur verið ábótavant.

Sóttvarnarlæknir segir mikla vinnu vera í gangi núna til að reyna að bæta innköllunarkerfi í tengslum við bólusetningar barna á heilsugæslustöðvum til að auka þátttökuna. Þá er einnig verið að koma á fót greiðslumódeli þar sem hver heilsugæslustöð fær greitt fyrir sín verk, þar á meðal bólusetningar, til að hvetja til betri árangurs.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja fram tillögu í borgarstjórn um að gera almennar bólusetningar að skilyrði við inntöku í leikskóla borgarinnar. Sóttvarnarlækni þykir hins vegar ekki ráðlagt að fara í baráttu við foreldra í tengslum við leikskólapláss fyrr en búið er að gera úrbætur á heilbrigðiskerfinu þannig innköllun í bólusetningar og skráning þeirra virki sem skyldi.

„Það er ýmislegt sem er í gangi sem verið er að breyta í samvinnu við heilsugæsluna til að reyna að bæta þessa þátttöku, sérstaklega í 12 mánaða, 18 mánaða og 4 ára bólusetningunum. Við erum aðallega óhress með þátttökuna þar,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í samtali við mbl.is. 91 prósent þátttaka var í bólusetningum við mislingum, hettusótt og rauðum hundum á síðasta ári, en hún er framkvæmd við 18 mánaða aldur. Æskilegt hlutfall er hins vegar 95 prósent.

Kerfið flaggi óbólusettum börnum

Þórólfur segir mikilvægast að ná til foreldra þeirra barna sem mæta ekki í bólusetningar. „Ástæðan er þá ekkert endilega af því þeir ætla meðvitað ekki að koma, heldur bara af því þetta gleymist. Það hefur verið bent á að það sé óeðlilegt að láta það alfarið í hendur foreldra að panta tíma því það á til að gleymast. Frekar að skrá niður tíma, þó það sé langt fram í tímann, og ef fólk mætir ekki þá hringja bjöllur. Fólk fengi þá áminningu deginum áður,“ útskýrir hann.

„Við erum að reyna að búa til innköllunarkerfi í sjúkraskrársögu sem myndi flagga þessu börnum sem hafa ekki mætt. Þannið að heilsugæslan geti kallað fram lista með börnum sem hafa ekki mætt og unnið markvisst að því að ná til þessa fólks. Það er verið að koma þessu kerfi á. Það tekur tíma og kostar pening, en sú vinna er á fullu.“

Þá bendir hann á að greiðslumódel sem verið er að koma upp hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hver heilsugæsla fær borgað fyrir sín verk, geti nýst í þessum tilgangi. „Eitt af því er þátttaka í bólusetningu, þannig það er mikill hvati fyrir heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu að ná sem bestum árangri í þátttökunni. Hugmyndin er að útfæra það á landsvísu.“

Vanskráningar skekkja tölfræðina 

Þórólfur segir það líka ákveðið vandamál að íbúaskrá úr þjóðskrá virðist ekki alltaf vera rétt. Það sé því erfitt að reiða sig á hana til að ná til fólks.

„Við höfum rekið okkur á það að þegar við höfum sent heilsugæslunni lista yfir börn sem eru illa bólusett eða óbólusett, þá segir heilsugæslan að þetta fólk búi ekki á svæðinu og hafi aldrei sést. Samt er það skráð eins og það búi þar. Þetta er þá kannski fólk sem býr erlendis og er samt skráð með heimili á Íslandi og kemur inn eins og það sé óbólusett og lækkar þannig töluna. Ég er að reyna að ná sambandi við þjóðskrá til að fara aðeins yfir þetta. Hvernig við getum fengið sem áreiðanlegastar upplýsingar um íbúaskrána.“

Þá er alltaf einhver óvissa með nákvæmni í skráningu bólusetninga sem veldur því að tölfræðin skekkist eitthvað. „Þessar tölur sem við erum að birta eru í raun lágmarkstölur. Þátttakan er allavega þessi en sennilega er hún meiri. Við höfum séð að það gleymist oft að skrá bólusetningar. Það er skráð á pappír en gleymist að skrá það inn í grunninn. Þá koma þeir krakkar fram sem óbólusettir. Þátttakan er því örugglega meiri en þær tölur sem við erum að birta. Við þurfum bara að reyna að lagfæra það.“

Lítill en stundum hávær hópur á móti bólusetningum 

Þrátt fyrir að vandamálið liggi að miklu leyti í innköllun og skráningu þá er hins vegar alltaf einhver hópur foreldra sem er hikandi varðandi bólusetningar og jafnvel alfarið á móti þeim. Þórólfur segir mikilvægt að halda áfram að ræða við þetta fólk. „Við höldum árlega fræðsluþing um bólusetningar með ungbarnaverndinni á heilsugæslunni sem sér um að bólusetja. Við byrjuðum á þessu í fyrra og ætlum að gera þetta aftur í haust þar sem við ætlum meðal annars að taka fyrir hvernig er hægt að ræða við foreldra sem eru hikandi hvað bólusetningar varðar. Þannig við erum að reyna að vinna frá þessum enda eins vel og við getum. Heilbrigðiskerfið er að reyna að bæta sig.“

Þórólfur telur að sá hópur fólks sem er á móti því að bólusetja börnin sín sé ekki stór hér á landi. Skoðanakannanir sýni það. „Ef við skoðum bólusetningar barna 3 og 5 mánaða þá er þátttaka þar yfir 95 prósent, þannig við erum ekki að fást við stóran hóp fólks sem er á móti. Hann virkar stundum hávær, þó það hafi ekki borið mikið á honum undanfarið. Ég held því að við eigum ekki að vera að eyða öllum okkar kröftum í þann í hóp. Við eigum að reyna að bæta hitt og sjá hverju það skilar okkur og hvort við þurfum að grípa til annarra ráða í framhaldi af því,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Það er því að mínu mati ekki ráðlagt að fara að berjast við foreldra í tengslum við leikskólann. Því bæði kostar það ofboðslega vinnu og er óljóst hvernig ætti að útfæra. Ég held að við eigum ekki að fara út í það fyrr en hitt er komið í lag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert