„Allir finna hvað hentar þeim. Það er vegferð að fara af stað í þetta, það er hægt að taka eitt skref til að byrja með og finna svo leiðir til þess að taka fleiri,“ segir Jóhanna Gísladóttir, formaður átaksins Plastlauss september sem hrundið verður af stað í annað sinn á morgun. „Það er áskorun að hugsa út fyrir kassann.“
Plastlaus september varð til á vormánuðum síðasta árs þegar umhverfismeðvitaðar nágrannakonur í 108 Reykjavík fengu hugmyndina frá ástralska átakinu Plastic Free July. Þeim fannst júlí ekki henta Íslendingum vel, enda væru þá mikið um sumarfrí og fólk ekki í rútínu, en ákváðu að hóa saman í hóp til að hrinda af stað Plastlausum september með skömmum fyrirvara.
„Átakið gekk vonum framar,“ segir Jóhanna, en síðan í fyrra hefur bæst í hóp skipuleggjenda, auk þess sem aðrar hafa dottið út vegna anna. Alls eru þær fjórtán sem standa að átakinu þetta árið, og um er að ræða algera grasrótarstarfsemi sem keyrð er áfram af sjálfboðaliðum.
Jóhanna segir það misjafnt hvað henti hverjum og einum, og að Plastlaus september snúist alls ekki um að vera alveg laus við allt plast. „Ég er formaður fyrir Plastlausan september og ég er ekki alveg plastlaus. Það eru allskonar skref sem við fjölskyldan höfum tekið en við kaupum enn einstaka skinkubréf, osturinn okkar kemur í plasti og við kaupum Cheerios og það er plastpoki utan um það.“
„Með þessu átaki erum við að reyna að fá fólk til þess að hugsa aðeins um umbúðir, sérstaklega plast, og hvort þau þurfi þær eða hvort það sé önnur leið. Við viljum að fólk sé vakandi yfir því hvað það notar mikið plast í hversdagslífinu og hvort það geti minnkað það,“ útskýrir Jóhanna. „Það er enginn að ætlast til þess að fólk fari ‚all in´.“
Jóhanna segir mörg flott átök hafa sprottið upp á undanförnum árum sem snúist um að hreinsa plast og annað rusl úr umhverfinu. „Það er fullt af flottum hlutum að gerast á þeim enda, þegar ruslið er orðið að vandamáli, en við viljum koma inn með þá hugsjón hvernig sé hægt að láta minna plast komast í umferð til að byrja með.“
Opnunarhátíð Plastlauss september fer fram á morgun, laugardag, og hefst hún klukkan 12 í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar verður bæði hægt að kaupa plastlausar vörur á markaði og fræðast um hin ýmsu málefni tengd plasti. Klukkan 13 hefjast erindi og mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra setja hátíðina. Nánar má lesa sér til um opnunarhátíðina hér.
Á heimasíðu Plastlauss september má finna ýmis ráð og hugmyndir tengdar því hvernig megi minnka plastnotkun. Fyrir Jóhönnu snýst þetta fyrst og fremst um að undirbúa hvern dag. „Að vera með poka tilbúinn ef þú ert að fara í matvörubúð, fara með fjölnota málið ef þú ert að fara á Boozt-barinn, muna eftir fjölnota kaffibollanum og vera á tánum, afþakka þegar þú pantar vöruna, að þú ætlir ekki að fá rörið eða lokið á kaffibollann.“
Jóhanna segir þetta allt skipta máli í stóra samhenginu. „Íslendingar nota 70 milljón plastpoka á ári sem eru um 200 plastpokar á mann. Ég og mín fjölskylda höfum eiginlega alveg hætt notkun plastpoka og bara vegna þessu eru fleiri hundruð plastpoka sem ekki hafa farið í notkun. Í stóra samhenginu er þetta að hafa áhrif. Ekki halda að þetta sé eitthvað sem skiptir ekki máli, að þetta hafi ekki áhrif, það er alls ekki þannig.“