Hörður Gíslason, sem hefur starfað hjá Strætó í hartnær 46 ár, segir Hlemm hafa tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. „Þetta var meiriháttar skiptistöð á þeim tíma þegar húsið var byggt, 1978. Fyrst og fremst var því ætlað að vera athvarf fyrir farþega og síðan var strax sett upp þjónusta. Það voru sölubásar, blómabúð og myndakassar svo eitthvað sé nefnt.“
Í dag fagnar Hlemmur 40 ára afmæli og af því tilefni fór fram dagskrá til heiðurs byggingarinnar, sem hönnuð var af Gunnari Hanssyni. Að loknu ávarpi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra var afmælisgestum boðið í bíltúr í gömlum strætisvagni.
Hörður Gíslason, gamalreyndur vagnstjóri Strætó, ók hinum gamla strætisvagni, Volvo B58 frá árinu 1968. Á rúntinum sagði Unnur María Bergsveinsdóttir sagnfræðingur frá menningunni sem skapast hefur í kringum Hlemm.
Eins og áður sagði var húsnæðið í fyrstu athvarf fyrir farþega. „Það fór í seinni tíð að bera á því að þarna kæmi fólk til að sitja dálítið lengi. Þarna var þó góð gæsla og reynt út af fyrir sig að hafa aga á öllu og það gekk oftast. Svo kom myndin Hlemmur út, sem dró ýmsar staðreyndir upp kannski í ýktri mynd, en svona var þetta,“ segir Hörður.
Starfsemi strætó hefur stækkað ört í gegnum árin og hefur leiðum fjölgað. Hörður segir stærstu breytinguna á Strætó yfir þessi 40 ár sé stækkun borgarinnar. Auk þess var áður fyrr keyrt niður Laugaveginn sem þekkist ekki núna.
„Áður fyrr var Lækjatorgið aðalskiptistöðin og Strætó byrjar 1931 þegar Reykjavík er að mestu leyti innan Norðurbrautar og Hringbrautar. Þá er ekið fyrst og fremst innan þess svæðis en líka að Lauganesi og snemma var farið að aka upp í Ártún, þegar Árbær byggðist,“ segir Gísli.
Byggingin er 40 ára og er eins í grunninn og upphafi en hefur þó oft verið gerð upp. „Húsið er í sama útliti og það var og þetta er fallegt og sérstakt hús. Tímarnir breytast og þarfirnar breytast og borgin stækkar og þróast og þá er eðlilegt að brugðist sé við breyttum aðstæðum,“ segir Hörður.