Sementsstrompurinn við Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi verður felldur, gangi tillaga skipulags- og umhverfisráðs bæjarstjórnar Akraness eftir. Bæjarstjórnin samþykkti í dag samhljóða tillögu þess efnis. Skessuhorn greinir frá.
Deiliskipulagsbreytingin verður send til Skipulagsstofnunar til yfirferðar og óskað heimildar til að auglýsa breytingartillöguna í B-deild stjórnartíðinda.
Í vor var gerð ráðgefandi skoðanakönnun meðal íbúa Akraness varðandi framtíð strompsins og alls vildu 94,25 prósent þeirra sem tóku þátt í kosningunni láta fella hann. Samtals voru 1.095 íbúar fylgjandi því að strompurinn verði felldur en 63 voru því mótfallnir, eða 5,75 prósent.
Niðurrif á reit Sementsverksmiðjunnar, sem var reist á árunum 1956 til 1958, stendur yfir og samkvæmt upplýsingum verkeftirlits er verktakinn Work North ehf. á undan verkáætlun en niðurrifinu á að ljúka 1. október næstkomandi.