Andlát: Hörður Felixson

Hörður Felixsson
Hörður Felixsson

Hörður Felixson, fyrrverandi skrifstofustjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, lést á dvalarheimilinu Skjóli í Reykjavík að morgni dags 29. ágúst síðastliðinn, 86 ára að aldri.

Hörður fæddist í Reykjavík 25.10. 1931. Foreldrar hans voru Ágústa Bjarnadóttir, kennari og húsmóðir, f. 2.8. 1900, d. 3.10. 1978, og Felix Pétursson bókari, f. 7.2. 1900, d. 3.9. 1987.

Hörður var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk prófum í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann starfaði alla tíð í Tryggingamiðstöðinni, frá 1959 til 1999, lengst af sem skrifstofustjóri.

Hörður var mikill íþróttamaður og félagsmaður. Hann varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari með KR í knattspyrnu og reyndar einnig Íslandsmeistari með KR í handknattleik 1958 ásamt því að sinna félagsstörfum fyrir félagið. Þá lék hann 11 landsleiki fyrir Íslands hönd í knattspyrnu. Þar á meðal spilaði hann með bræðrum sínum, Bjarna og Gunnari, í landsliðinu 1963 á móti Bretlandi í undankeppni Ólympíuleikanna í Tókýó 1964. Þetta var í fyrsta sinn í knattspyrnusögunni sem þrír bræður léku saman í landsleik og var það skráð í heimsmetabók Guinness.

KR naut krafta Harðar í áratugi og var hann sæmdur gullmerki félagsins fyrir störf sín á þeim vettvangi. Auk þess tók hann virkan þátt í félagsstörfum og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Seltjarnarnesbæ og fleiri samtök og félög.

Hörður lætur eftir sig eiginkonu, Kolbrúnu Skaftadóttur, og þrjú uppkomin börn, Skafta, Ágústu og Hörð Felix, ásamt barnabörnum og barnabarnabörnum.

Útför Harðar verður gerð frá Neskirkju miðvikudaginn 5. september kl. 15. Liðsmenn KR leika með sorgarbönd vegna fráfalls Harðar þegar þeir sækja FH heim í Pepsi-deild karla á morgun, sunnudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert