Höfnuðu 600 íbúða byggð á Kjalarnesi

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hugmyndir landeigenda í Nesvík á Kjalarnesi um uppbyggingu nýrrar byggðar með allt að 600 íbúðum á svæðinu fengu ekki hljómgrunn á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á miðvikudaginn. Meirihlutinn staðfesti tillögu skipulagsfulltrúa borgarinnar sem lagði til að hugmyndinni yrði hafnað. Fulltrúar minnihlutans bókuðu hörð andmæli og vildu samþykkja erindið. Bentu þeir m.a. á mikinn og viðvarandi skort á íbúðarhúsnæði í Reykjavík.

„Um er að ræða mjög umsvifamikla tillögu að breytingu á landnotkun svæðisins og þeim sérákvæðum sem eru í gildi fyrir land Nesvíkur,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Landið, sem liggur syðst á Kjalarnesinu og hallar að sjó, er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi, en nýtist ekki til landbúnaðar svo sem til ræktunar túna.

Ekki er í gildi neitt deiliskipulag fyrir landið. Skipulagsfulltrúi bendir á að í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé talað um að þróun þéttbýlis verði í Grundarhverfinu og í kringum það, ekki á öðrum svæðum. „Vissulega er rétt að vænlegast er talið að hverfið þróist til vesturs meðfram ströndinni en ekki að það geti teygt sig alla leið að landi Nesvíkur sem er um 2,5-3 km frá núverandi kjarna í Grundarhverfi og teygir sig í 3,5 km að Klébergsskóla. Til að setja það í ákveðið samhengi, þá er fjarlægðin frá hugmyndum að íbúðarbyggð í Nesvík að Klébergsskóla svipuð og frá Kringlunni niður í Kvos í miðborg Reykjavíkur,“ segir skipulagsfulltrúi. Hann bendir á að Nesvík sé utan þeirra vaxtarmarka sem Svæðisskipulag Höfuðborgarsvæðisins hafi sett um uppbyggingu. Með uppbyggingu innan núverandi þéttbýlis sé stutt við betri nýtingu á grunnkerfum samgangna, veitna og almannaþjónustu og dregið úr þrýstingi um uppbyggingu á óbyggðum svæðum.

Skipulagsfulltrúi segir að vissulega megi segja að landið í Nesvík sé gríðarlega fallegt og gæti hentað að einhverju leyti fyrir íbúðarbyggð en það sé ekki talið tímabært á þessum tímapunkti án frekari umræðu og skoðunar að heimila að vinna deiliskipulag fyrir svæðið á þeim grunni sem framkomnar tillögur sýni. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert