Sjálfstæðið til Brussel í smápörtum

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, flutti erindi á fundinum.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, flutti erindi á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Frá því að EES-samningurinn var gerður fyrir aldarfjórðungi hefur Evrópusambandið þróast á þann veg að það koma upp stöðug fleiri álitamál um hversu langt við getum gengið í þessu samstarfi án þess að við afsölum okkur sjálfstæði okkar í smápörtum hér og þar til Brussel.“

Þannig hófst ræða Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, á fjölmennum opnum fundi sem hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavíkur boðuðu á fimmtudagskvöldið í aðalsal Valhallar, höfuðstöðva flokksins, um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem til stendur að leggja fyrir Alþingi til samþykktar, en Styrmir var frummælandi á fundinum.

Tímabært að staldra við

Styrmir sagði þriðja orkupakkann eitt dæmi um þessa ásælni Evrópusambandsins. Hún sneri hins vegar ekki aðeins að Íslandi heldur mætti sjá dæmi hennar um alla Evrópu, sem aftur leiddi til stöðugt meiri ágreinings innan sambandsins. Tímabært væri fyrir sjálfstæðismenn að staldra við nú þegar staðið væri frammi fyrir ákvörðunum sem gætu opnað Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands, orku fallvatnanna, og íhuga hvert væri verið að fara í ljósi sögu flokksins sem hefði öðrum stjórnmálaflokkum fremur staðið vörð um frelsi og sjálfstæði landsins.

„Verði orkupakkinn samþykktur hefur Evrópusambandinu verið opnuð leið til þess að ná síðar yfirráðum yfir einni af þremur helstu auðlindum okkar Íslendinga. Þótt sagt sé á pappírunum að það sé í okkar eigin höndum að koma í veg fyrir það má strax greina suðið í undanhaldsmönnum sem munu hefjast handa við að sannfæra þjóðina að það sé hagkvæmt fyrir hana að láta þau yfirráð af hendi. Við munum hvernig þeir töluðu í Icesave, forystumenn í stjórnmálum, embættismenn og sérfræðingar. Manna á meðal heyrist setningin: Við eigum ekki annarra kosta völ og er höfð eftir hinum og þessum þingmönnum okkar. [...] Ef það er rétt að við eigum ekki annarra kosta völ er tímabært að stöðva við og endurskoða EES-samninginn allan,“ sagði Styrmir enn fremur og bætti við að landsfundir Sjálfstæðisflokksins, æðsta valdið í málefnum flokksins, hefðu aldrei samþykkt það að fullveldi Íslands væri fært í hendur Evrópusambandsins smátt og smátt í gegnum aðild landsins að EES-samningnum.

Styrmir rifjaði enn fremur upp ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrr á þessu ári þar sem hafnað hefði verið frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Ef þingmenn flokksins ætluðu að leyfa sér að ganga gegn ályktuninni sagðist Styrmir vilja leggja fram þá tillögu að málið yrði borið undir atkvæði allra flokksbundinna sjálfstæðismanna. Það væri lýðræðisleg leið til að gera út um ágreiningsmál. „Við hina ungu forystusveit Sjálfstæðisflokksins í dag langar mig að segja: Gætið að ykkur. Sá þráður í sálarlífi þessa flokks sem snýr að fullveldi og sjálfstæði er mjög sterkur. Flokkurinn virðist hafa misst varanlega um þriðjung af sínu fylgi. Hann má ekki við meiru. Sýnið þeirri sögu sem hér hefur verið rakin virðingu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert