Utanvegahlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson er kominn í mark í UTMB Ultra-Trail du Mont-Blanc-hlaupinu. Þorbergur Ingi hafnaði í 32. sæti í keppninni en alls hóf 2.581 hlaupari keppni í þessu rúmlega 170 km hlaupi. Hækkunin er um 10 km.
Þorbergur Ingi hljóp á 25:57:11 en þetta er í fyrsta skipti sem hann tekur þátt í þessari vegalengd. Í fyrra hljóp hann CCC hlaupið sem var 101 kílómetri auk þess sem hækkunin nam um 6.100 metrum. Alls eru Mount-Blanc ofurhlaupin fjögur talsins og er hlaupaleiðin sem Þorbergur keppti í sú lengsta og um leið erfiðasta.
Hér er hægt að fylgjast með hlaupi Þorbergs Inga og sjá myndskeið þegar hann kemur í mark nú rétt fyrir klukkan 18 að íslenskum tíma.
Auk Þorbergs Inga keppir Guðmundur Ólafsson í sömu vegalengd en hann er enn að keppa og á rúma 50 km eftir af hlaupinu.
Hér er hægt að fylgjast með Guðmundi
Þorbergur Ingi er einn fremsti hlaupari Íslendinga og á meðal annars fjóra bestu tímana í Laugavegshlaupinu.
Á vefnum hlaup.is er vísað í vefinn Irunfar.com, sem er framarlega í umfjöllun um utanvegahlaup, er fjallað um hlaupara sem þóttu líklegir til afreka á Mont Blanc. Þar er að finna nafn Þorbergs Inga Jónssonar. Tekið er fram að Þorbergur hafi hafnað í sjötta sæti í CCC hlaupinu árið 2017, því fimmtánda árið 2015 auk þess að hafa hafnað í níunda sæti í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum árið 2015.