Jarðneskum leifum Stefáns Karls Stefánssonar leikara var dreift í hafið á föstudag að hans ósk. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu eiginkonu hans, Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur.
Stefán lést 21. ágúst eftir tveggja ára baráttu við gallgangakrabbamein, 43 ára að aldri.
Leiklistarferill Stefáns Karls hófst í grunnskóla Hafnarfjarðar þar sem hann lék í skólaleikritum. 12 ára gamall fór hann að leika með Leikfélagi Hafnarfjarðar í unglingadeild leikfélagsins. Með leikfélaginu lék hann m.a. í leikritunum Hróa hetti, Mó Mó og Hans og Grétu.
Hóf hann nám við Leiklistarskóla Íslands árið 1995 og útskrifaðist árið 1999. Sama ár fékk hann fastráðningu við Þjóðleikhúsið. Á starfsferlinum kom hann víða við og strax á upphafsárum sínum í leikhúsinu lék hann tannlækninn í Litlu hryllingsbúðinni, drykkjumann, föður kerlingar og Pál postula í Gullna hliðinu, Fílóstratus og Bokka í Draumi á Jónsmessunótt og Jepíkhodov í Kirsuberjagarðinum. Þá fór hann með eitt aðalhlutverka í Syngjandi í rigningunni.
Miklar vinsældir vakti frammistaða þeirra Stefáns Karls og Hilmis Snæs Guðnasonar í Með fulla vasa af grjóti árið 2000 sem sýnt var 160 sinnum. Aftur var sýningin sýnd árið 2012 og síðast árið 2017. Stefán Karl lék titilhlutverk í leikritinu Glanni glæpur í Latabæ árið 1999, en leiksýningin varð innblástur sjónvarpsþáttaraðarinnar Latibær (e. Lazy town) sem framleidd var fyrir börn um allan heim. Í þáttunum túlkaði Stefán Karl Glanna glæp áfram. Á þeim vettvangi naut hann mikilla vinsælda fólks um heim allan.
Árið 2009 tók Stefán Karl við hlutverki Trölla í söngleiknum Þegar Trölli stal jólunum, sem sýndur var í Bandaríkjunum og Kanada á árunum 2008 til 2015.