Samningar hafa náðst um smíði á tveimur 88 metra uppsjávarveiðiskipum fyrir Samherja hf. og Síldarvinnsluna hf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dönsku skipasmíðastöðinni Karstensens Skibsværft (KS) en samningarnir eru gerðir með fyrirvörum, m.a. um samþykki stjórna og fjármögnun á smíðunum, og hafa því ekki tekið gildi.
Búist er við að samningarnir taki gildi á morgun, 4. september, samkvæmt upplýsingum frá danska fyrirtækinu.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, staðfestu fregnirnar í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi en vildu ekki gefa frekari upplýsingar um málið.
„Þessir samningar eru stór áfangi í innreið Karstensens Skibsværft á íslenskan markað,“ segir í kynningu danska fyrirtækisins. Ef allt gengur eftir verður hið nýja skip, Vilhelm Þorsteinsson, afhent Samherja 15. júní 2020, og skipið Börkur afhent Síldarvinnslunni hálfu ári seinna, 15. desember.