Fjölmargir aðdáendur Stefáns Karls Stefánssonar leikara, sem féll nýverið frá, hafa óskað eftir því að reist verði stytta af honum í Hafnarfirði, heimabæ Stefáns.
Tæplega hálf milljón manns hefur skrifað undir undirskriftasöfnun til stuðnings málinu, þar af fjölmargir erlendir aðdáendur Stefáns, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Stofnað var til undirskriftasöfnunarinnar á vefsíðunni change.org. Á síðunni segir: „Undirskriftasöfnun fyrir leikarann Stefán Karl Stefánsson, um að reist verði stytta í heimabæ hans, Hafnarfirði á Íslandi, svo að arfleifð hans og heiður lifi um alla eilífð.“