Segir ásetninginn ekki fyrir hendi

Valur Lýðsson, t.h. og Ólafur Björnsson, verjandi hans við aðalmeðferð …
Valur Lýðsson, t.h. og Ólafur Björnsson, verjandi hans við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verjandi Vals Lýðssonar, Ólafur Björnsson, fer fram á að Valur verði sýknaður af manndrápsákæru fyrir að hafa orðið bróður sínum að bana, en að öðrum kosti að honum verði gerð vægasta refsing sem unnt er að gera, með vísan til þess að það hafi ekki verið ásetningur hans að svipta bróður sinn lífi.

Þá er það krafa ákærða, að bótakröfum barna Ragnars á hendur honum verði vísað frá eða þær lækkaðar verulega, en fjögur börn Ragnars gera miskabótakröfur í málinu upp á 10 milljónir króna hvert.

Ákæruvaldið fer fram á að Valur verði dæmdur til 16 ára fangelsisvistar, fyrir manndráp.

Í málflutningi verjandans kom fram að það hefðu orðið fagnaðarfundir er bræðurnir þrír, Valur, Ragnar og Örn Lýðssynir, komu saman á æskuheimili sínu á Gýgjarhóli II í Biskupstungum 30. mars. Vísaði hann til vitnisburðar vinar Ragnars, sem ræddi við hinn látna í síma þetta kvöld og lýsti því fyrir dómi í síðustu viku að svo virtist sem vel hefði farið á með bræðrunum.

Ólafur dró í efa ásetning Vals um að verða bróður sínum að bana og sagði fullyrðingar ákæruvaldsins um meintan ásetning einungis byggjast á aðstæðum á vettvangi. Hann nefndi að vopni hefði ekki verið beitt, en ætla mætti að ef Valur hefði ætlað sér að bana bróður sínum hefði hann gripið til einhvers bareflis eða vasahnífs, sem hann var raunar með á sér allt þar til hnífurinn var tekinn af honum við líkamsleit lögreglu.

Verjandinn sagði ljóst að fyrstu viðbrögð Vals eftir að hann vaknaði um morguninn hefðu verið að tilkynna Neyðarlínunni lát Ragnars og að ákærði hefði verið í áfalli er hann ræddi við bæði Neyðarlínu og lögreglu.

Þá hefði Valur ekki reynt að fela ummerki á vettvangi og sagt síðar meir að hann harmaði atburðinn verulega og sýnt iðrun, án þess þó að geta tekið afstöðu til þess sem gerðist þetta kvöld, sökum minnisleysis.

Rannsókn á vettvangi ábótavant

Ólafur sagði líka að rannsókn lögreglu hefði að mestu beinst að því að renna stoðum undir sekt Vals. Hann sagði rannsakendur ekki hafa útilokað að þriðji aðili hefði getað komið að þessum verknaði og benti á að ekki hefði verið gerð fingrafararannsókn í húsinu né fótsporarannsókn fyrir utan það.

Þá hefði ekki verið útskýrt almennilega hvers vegna ekkert blóð fannst á gólfinu á leiðinni frá þvottahúsinu og inn í svefnherbergi Vals, né hvers vegna ekkert blóð úr fórnarlambinu fannst í svefnherberginu, þrátt fyrir að blóð úr Ragnari væri á bæði sokkum og fleiri flíkum Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert