Ákærður fyrir kynferðisbrot í Eyjum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni fyrir árás og kynferðisbrot gegn konu í Vestmannaeyjum í september árið 2016. RÚV greinir frá þessu. Konan fannst nakin og með mikla áverka á höfði í húsagarði og var flutt meðvitundarlaus á Landspítalann í Fossvogi.

Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í tæpar tvær vikur vegna málsins en var látinn laus eftir að dómstólar féllust ekki á kröfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum um framlengingu gæsluvarðhalds.

Í frétt RÚV kemur fram að rannsókn lögreglunnar á málinu hafi lokið í október í fyrra, en það tafðist vegna þess að konan fór úr landi skömmu eftir árásina og reyndist erfitt að ná tali af henni. Þegar rannsókn málsins var lokið fór það í ákæruferli um síðustu áramót en héraðssaksóknari taldi hins vegar að rannsaka þyrfti tiltekin atriði betur og vísaði málinu því aftur til lögreglu. Framhaldsrannsókn lauk í sumar og fór málið þá aftur til héraðssaksóknara sem nú hefur gefið út ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert