Framundan er umfangsmikill leiðangur með áherslu á magn og útbreiðslu loðnu. Á grundvelli niðurstaðna þessa leiðangurs verður gefin út ráðgjöf um loðnuveiðar í vetur.
Jafnframt verður margvíslegum öðrum rannsóknum sinnt, meðal annars á vistkerfinu, og verður reynt að leggja mat á fjölda hvala og sjófugla á loðnuslóð.
Auk íslensku rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar taka Grænlendingar þátt í verkefninu og hafa þeir tekið norskt, vel tækjum búið uppsjávarskip á leigu. Fyrsta skipið fer út á fimmtudag, en síðan fara þau hvert af öðru og er áætlað að leiðangurinn taki þrjár vikur. Um borð í öllum skipunum verða sérstakir hvalatalningarmenn, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.