Maður sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir árás á konu í Vestmannaeyjum í september árið 2016 er ekki ákærður fyrir nauðgun. Hann er ákærður fyrir sérlega hættulega líkamsárás, blygðunarsemisbrot og að koma konunni í þannig ástand að hún var bjargarlaus. RÚV greinir frá og hefur upplýsingarnar frá Héraðsdómi Suðurlands.
Konan fannst nakin og með mikla áverka á höfði í húsagarði og var flutt meðvitundarlaus á Landspítalann í Fossvogi. Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í tæpar tvær vikur vegna málsins en var látinn laus eftir að dómstólar féllust ekki á kröfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum um framlengingu gæsluvarðhalds.
Rannsókn lögreglunnar á málinu lauk í október í fyrra, en það tafðist vegna þess að konan fór úr landi skömmu eftir árásina og reyndist erfitt að ná tali af henni. Þegar rannsókn málsins var lokið fór það í ákæruferli um síðustu áramót en héraðssaksóknari taldi hins vegar að rannsaka þyrfti tiltekin atriði betur og vísaði málinu því aftur til lögreglu. Framhaldsrannsókn lauk í sumar og fór málið þá aftur til héraðssaksóknara sem nú hefur gefið út ákæru.