Nú stendur yfir ljósmyndasamkeppnin #betraloftslag en henni lýkur 8. september, á degi Loftslagsgöngunnar.
Til að taka þátt þarf að taka myndir af einhverju sem tengist lífsstíl að betra loftslagi eða hefur hvetjandi áhrif í baráttunni við loftslagsbreytingar og merkja þær með myllumerkinu #betraloftslag á Instagram eða Facebook.
Nú þegar hafa safnast rúmlega hundrað skemmtilegar myndir sem við hvetjum alla til að skoða, að því er segir í tilkynningu.
Margir veglegir vinningar eru í boði en dómarar keppninnar verða Spessi Hallbjörnsson ljósmyndari, Ísold Uggadóttir kvikmyndagerðarkona og Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.
Ýmsir möguleikar eru að lífsstíl að betra loftslagi. Í tilkynningunni er mælt með:
- Samgöngumátum sem krefjast lítils útblásturs.
- Einföldum lífsstíl án óþarfa neyslu.
- Endurnýtingu og endurvinnslu.
- Plastlausum lífsstíl.
- Grænkeralífsstíl.
- Innlendri framleiðslu.
- Styrkja samtök sem auka skóga.
- Styrkja samtök sem endurheimta votlendi.
- Ræða um lífsstíl að betra loftslagi og loftslagsbreytingar.
- Krefja yfirvöld og fyrirtæki um aðgerðir sem sporna við loftslagsbreytingum.
Mælt er með eftirfarandi umræðuhópum á Facebook:
Loftslagsbreytingar - umræða og fréttir,
Lífsstíll að betra loftslagi,
Plastlaus september,
Samtök um bíllausan lífsstíl
Vegan Ísland