Húshitun dýrust í Kaupmannahöfn

Nýhöfn í Kaupmannahöfn.
Nýhöfn í Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikill munur er á kostnaði vegna húshitunar fyrir íbúa í höfuðborgum Norðurlandanna. Íbúi í Kaupmannahöfn þarf að borga 314 þúsund krónur á ári, íbúi í Stokkhólmi rúmlega 300 þúsund krónur, í Osló 264 þúsund krónur og í Helsinki 246 þúsund krónur á ári.

Í tilkynningu frá Samorku kemur fram að í Reykjavík sé árlegur kostnaður hins vegar aðeins 90 þúsund krónur. Að meðaltali er kostnaðurinn 243.521 króna á ári fyrir íbúa í höfuðborg á Norðurlöndum.

Tölurnar eru fengnar úr árlegri samantekt Samorku um húshitunarkostnað þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg á Norðurlöndum.

Húshitunarkostnaður í heild.
Húshitunarkostnaður í heild. Graf/Samorka

Langflest heimili á Íslandi eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Annars staðar á Norðurlöndunum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Á hverju ári sparar húshitun með jarðhita mikla losun koltvísýrings út í andrúmsloftið, eða um 19 milljónir tonna árlega, að því er segir í tilkynningunni.

Úr Vesturbænum. Húshitun er lægst í Reykjavík af höfuðborgum Norðurlandanna.
Úr Vesturbænum. Húshitun er lægst í Reykjavík af höfuðborgum Norðurlandanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Til samanburðar höfum við skuldbundið okkur til að minnka losun koltvísýrings um eina milljón tonna fyrir árið 2030 samkvæmt Parísarsamningnum.

Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.

Húshitunarkostnaður með sköttum og gjöldum.
Húshitunarkostnaður með sköttum og gjöldum. Graf/Samorka
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert