„Kjarasamningar eru lausir um áramótin sem mun vafalítið lita mjög umræður á Alþingi næstu vikurnar. Efnahagsmálin og fjárlagafrumvarpið verða ef að líkum lætur mikið rædd í samhengi við kjaramálin,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Alþingi verður sett á þriðjudag í næstu viku, 11. september og stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða svo næsta dag, það er að kvöldi miðvikudagsins 12. september, að því er fram kemur í frétt um þingstörfin í Morgunblaðinu í dag.
„Þingveturinn getur orðið átakamikill,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. „Bæði skortir talsvert á samstöðu meðal stjórnarflokkanna sem sömuleiðis hafa gefið út ýmsar yfirlýsingar um aukin útgjöld til dæmis í heilbrigðismálin, sem eru kannski ekki raunhæf nú þegar er að kólna í hagkerfinu, eins og hvarvetna sjást merki um. Þá hefur ríkisstjórnin sömuleiðis heitið ýmsu varðandi aðsteðjandi kjaraviðræður og spurning hvort þau fyrirheit standast.“