Eitt frávik frá starfsleyfi á Bakka

Mælingar í kringum kísilverið hafa ekki farið yfir heilsuverndarmörk.
Mælingar í kringum kísilverið hafa ekki farið yfir heilsuverndarmörk. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Engar mælingar í kringum kísilver PCC á Bakka hafa farið yfir heilsuverndarmörk frá því verksmiðjan var gangsett í vor, en fimmta og síðasta eftirlitsferðin var farin í dag, skömmu áður en niðurstöður eftirlits Umhverfisstofnunar og umhverfisvöktunar voru kynntar á opnum fundi á Húsavík. Þetta segir Einar Halldórsson, verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sem sinnt hefur eftirlitinu.

Hins vegar hefur komið upp eitt frávik frá starfsleyfi í þessum eftirlitsferðum. „Um var að ræða minniháttar frávik sem sneri að aðgengi að framleiðslusvæðinu. Okkur þótti því ábótavant og það er verið að laga það,“ segir Einar í samtali við mbl.is

„Þetta eru tveimur fleiri ferðir en við höfum farið í miðað við venjulega tíðni, annars vegar vegna brunans í júlí, þá var ákveðið að fara aftur í gangsetningu og kanna aðstæður eftir það, og hins vegar fórum við í aukaeftirlit þegar gangsetningin var,“ útskýrir Einar.

Bruninn sem hann vísar til átti sér stað 9. júlí síðastliðinn þegar eldur kom upp í ofnhúsi ofnsins Birtu í kísilverkinu, en greiðlega gekk að slökkva eldinn og ekki urðu verulegar skemmdir.

Einar Halldórsson hjá Umhverfisstofnun í pontu á fundinum.
Einar Halldórsson hjá Umhverfisstofnun í pontu á fundinum. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Enn eiga svo eftir að berast niðurstöður úr ýmiss konar mælingum, að sögn Einars. „Eftir á að gera frekari mælingar í verksmiðjunni sjálfri og þeir hafa út árið til að taka stikkprufur af því sem er ekki í símælingu. Það er símæling á ryki í útblæstri og slíku.“

Einar segir kynningarfundi, eins og þann sem var haldinn í dag, yfirleitt fjalla um rekstrarárið á undan og fari þá fram í maí. Þar sé þá farið yfir eftirlit síðasta árs. En þar sem rekstur hófst ekki á Bakka fyrr en á þessu ári er úr minni upplýsingum að moða. „Við ákváðum að hafa samt fund núna til að segja aðeins frá hvernig reksturinn hefur gengið og hvernig eftirlitið hefur verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert