Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarna daga haft til rannsóknar mál sem leiða má beint af tálbeituaðgerð óbreytts borgara. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi lögreglunnar, Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, í samtali við mbl.is.
Greint er frá málinu á Vísi, en fréttir af Jóhannesi Gísla Eggertssyni sem villti á sér heimildir og fékk mann á sextugsaldri til að halda að hann væri að fara að hitta fjórtán ára stúlku hafa farið hátt undanfarna daga. Jóhannes birti myndskeið af atvikinu síðastliðna helgi.
Lögreglan getur ekki staðfest að rannsóknin tengist þessu tiltekna máli.
Jóhannes spjallaði við Hvata og Huldu í Magasíninu á K100 um málið á dögunum, þar sem hann sagðist ekki sjá eftir neinu þótt hann áttaði sig á að það sem hann hefði gert væri á gráu svæði.