Hagsmunaskráning þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna er ófullnægjandi að mati starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
Þetta er meðal þess er kemur fram í skýrslu hópsins sem var kynnt á blaðamannafundi í Safnahúsinu í gær.
Þá segir að eftirfylgni skráningarinnar þurfi að vera markvissari og að reglur þurfi að vera víðtækari þar sem gildandi reglur gefi ekki rétta mynd af fjárhagslegum hagsmunum. Núverandi reglur ná til launa, eigna og hlunninda, en ekki til fjárhagslegra skuldbindinga. Starfshópurinn leggur til að hagsmunaskráning nái til slíkra skuldbindinga og fjárhagslegra tengsla nánustu fjölskyldu, svo sem maka og jafnvel ólögráða barna.