„Við erum hugsi yfir þeim óvæntu atburðum og umræðu sem hefur átt sér stað í kjölfar samkomulags Arnarlax og Klúbbs matreiðslumanna um að hið vestfirska fiskeldi Arnarlax verði bakhjarl kokkalandsliðsins.“
Þetta kemur fram í tilkynningu á facebooksíðu Arnarlax í tilefni þess að kokkalandsliðsmenn sögðu sig úr kokkalandsliðinu í gær. Með því vildu þeir mótmæla þeirri ákvörðun stjórnar landsliðsins að gera samning við Arnarlax sem framleiðir lax í opnu sjókvíaeldi.
Fram kemur á síðu Arnarlax að samningurinn hafi verið undirritaður í góðri trú við hátíðlega athöfn í Hörpu. Verkefnið hafi verið í undirbúningi í tvo mánuði og sé spennandi.
„Okkur finnst ákaflega leitt að unga landsliðsfólkið okkar hafi verið dregið inn í grímulausa hagsmunabaráttu með þvingunum veiðileyfahafa og hatursfullum áróðri þeirra gegn uppbyggingu sjókvíaeldis hér á landi að farsælli fyrirmynd nágrannalanda okkar,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir að hjá Arnarlaxi starfi um 200 manns, starfsmenn og verktakar. „Fyrirtækið er rekið af ábyrgð og með virðingu fyrir umhverfi og samfélagslegum gildum og árið 2017 var skattspor Arnarlax á sunnanverðum Vestfjörðum tæpar 700 milljónir króna,“ segir í tilkynningunni.
„Leyfi Arnarlax til laxeldis eru gefin út í samræmi við stjórnarsáttmálann og stefnu yfirvalda er lýtur umsjón opinberra stofnana eins og Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar og er uppbyggingin á höndum færustu vísindamanna okkar hjá Hafrannsóknastofnun. Áhugavert væri til samanburðar og til að gæta jafnræðis að skoða skattspor veiðileyfahafa af rekstri laxveiðiáa, veitinga- og gistiþjónustu og þjónustu leiðsögumanna í veiðinni.“
Þar segir einnig að kokkalandsliðið hafi látið undan þrýstingi áróðurshóps tiltekinna sérhagsmuna sem tekur afstöðu gegn íslenskum matvælum, eldislaxi.
„Arnarlaxi hefur borist skeyti þar sem stjórn Klúbbs matreiðslumeistara riftir samningnum á forsendum sem við teljum að standist ekki skoðun og höfum óskað eftir viðræðum við þá eftir helgi um farsæla lausn málsins svo tryggja megi atvinnuöryggi landsliðsins.“