Hugnast ekki að hjálpa einkafyrirtækjum

Sigurður Ingi Jóhannsson mætir til Bessastaða í dag á ríkisráðsfund.
Sigurður Ingi Jóhannsson mætir til Bessastaða í dag á ríkisráðsfund. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almennt séð ætti íslenska ríkið ekki að koma einkafyrirtækjum til aðstoðar, segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samtali við blaðamann mbl.is, aðspurður um hans persónulegu skoðun á því hvort ríkið ætti að stíga inn og koma íslensku flugfélagi til bjargar ef útlit væri fyrir að það stefndi í þrot.

Samráðshópur fjögurra ráðuneyta um kerfislega mikilvæg fyrirtæki var stofnaður í vor og fundar enn reglulega, en reiknað er með því að hópurinn skili niðurstöðum sínum fyrir lok septembermánaðar.

Mikið hefur verið rætt um stöðu beggja íslensku flugfélaganna í sumar, sér í lagi WOW air, eftir að upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins voru opinberaðar í tengslum við skuldabréfaútboð sem fyrirtækið réðst í til að endurfjármagna skuldir og brúa fjárþörf fram að frumútboði félagsins á hlutabréfamarkað, sem stefnt er að innan eins og hálfs árs.

„Við verðum auðvitað að leggja mat á það hvaða þjóðhagslegu áhrif þau hafa og hversu kerfislega mikilvæg þau eru,“ sagði Sigurður Ingi áður en hann rauk inn á ríkisráðsfund á Bessastöðum síðdegis í dag, en bætti við að verið væri að skoða samgöngufyrirtæki og einnig fyrirtæki á öðrum sviðum.

Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til mbl.is í ágúst var nánar tiltekið að auk flugfélaga og félaga í ferðaþjónustu væri einnig verið að skoða fjarskipta- og veitufyrirtæki, skipafélög og önnur fyrirtæki sem eru „svo þýðing­ar­mik­il í ís­lensku efna­hags­lífi að tíma­bund­in rösk­un á þjón­ustu þeirra hef­ur mik­il áhrif á not­end­ur og rekst­ur annarra aðila með efna­hags­legu tjóni fyr­ir sam­fé­lagið allt“.

Sífellt fleiri erlend félög á flugi

Því hefur verið velt upp að ef starfsemi annars íslensku flugfélaganna stöðvist gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu í landinu, sem er orðin undirstöðuatvinnugrein og háð því að hingað til lands fljúgi ferðamenn.

Úttekt Túrista frá því í sumar leiddi í ljós að í júní síðastliðnum stóðu Icelandair og WOW air samanlagt fyrir 77% brottfara frá Keflavíkurflugvelli, Icelandair 44,7% og WOW air 32,2%.

Æ fleiri erlend flugfélög fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli og hefur hlutdeild þeirra í brottförum frá Keflavík aukist á undanförnum árum. Sigurður Ingi segir að flugmarkaðurinn hafi verið að breytast.

„Við erum að sjá fjölmörg önnur erlend flugfélög og dreifing farþega bæði til og frá landinu er ekkert endilega hjá einu félagi eða tveimur,“ segir Sigurður Ingi.

Skuldabréfaútboð WOW air stendur nú yfir, en í það var …
Skuldabréfaútboð WOW air stendur nú yfir, en í það var ráðist til að endurfjármagna skuldir og brúa fjárþörf flugfélagsins fram að hlutabréfaútboði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka