Skemmtilegt að hlaupa í gegnum nóttina

Farið er upp Kambana og meðal viðkomustaða hlaupara í 100 …
Farið er upp Kambana og meðal viðkomustaða hlaupara í 100 km er Ölkelduhálsinn, Innstidalur, Sleggjubeinaskarð og Vörðuskeggi. Ljósmynd/Facebook Hengill Ultra

Metskráning er í Hengils Ultra-utanvegahlaupið, eina hlaupið á Íslandi þar sem boðið er upp á 100 km vegalengd. „Þetta er eiginlega 100% aukning á milli ára,“ segir Þorsteinn Tryggvi Másson, einn skipuleggjendanna. Hengill Ultra fer nú fram í sjöunda skipti og leggja þátttakendur í 100 km hlaupinu af stað frá Skyrgerðinni í Hveragerði klukkan 22 í kvöld.

Að þessu sinni koma hlauparar frá 17 löndum og fjórum heimsálfum sérstaklega til að taka þátt í 100 og 50 km vegalengdunum, en einnig er boðið upp á 25 km, 10 km og 5 km. Hlaupið verður með höfuðljós í gegnum nóttina, en ekki verður ræst út í skemmri vegalengdir fyrr en á morgun, laugardag.

Hengill Ultra er að vinna sér sess að sögn Þorsteins. „Það er það sama að gerast þarna og með Laugaveginn.“ Hlaupin séu auglýst á alþjóðlegum hlaupasíðum og fyrir þá sem eru að safna punktum til að komast í stærri hlaup gefist hlaup á borð við Hengilshlaupið vel, en 100 km vegalengdin gefur fimm punkta.

Þorsteinn nefnir UTMB Ultra-Trail du Mont-Blanc-hlaupið, sem Þorbergur Ingi Jónsson tók þátt í í síðustu viku, sem dæmi um hlaup sem þurfi að safna punktum í. „Það þarf að hafa 15 punkta til að geta tekið þátt í því og þá þarf að hlaupa þrjú svona stór hlaup til að komast í happdrættið um hlaupið.“

Hausinn verður að vera í lagi

Sjálfur er Þorsteinn þegar kominn í 100 km klúbbinn. Hann hljóp 100 km í Hengilshlaupinu í fyrra og 2016 hljóp hann langhlaup í Frakklandi. Hann verður svo í hópi þeirra 30 sem hlaupa 100 km í Hengilshlaupinu í ár og eru um tveir þriðju hlauparanna í þeirri vegalengd Íslendingar.

Spurður hvort þetta sé ekki svolítil bilun svarar hann játandi. „Lífsstíllinn er hollur, en hlaupið sjálft er kannski ekki hollt,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn Tryggvi Másson, einn skipuleggjenda Hengill Ultra, segir hlaupið vera …
Þorsteinn Tryggvi Másson, einn skipuleggjenda Hengill Ultra, segir hlaupið vera að vinna sér sess. Ljósmynd/Facebook

Það sé þó skemmtileg tilfinning að hlaupa í gegnum nóttina. „Þetta er allt öðruvísi en að hlaupa að degi til og nokkuð sem menn verða eiginlega að prufa,“ segir hann. „Þetta er svolítil hausaleikfimi og maður verður að passa að næra sig vel. Stóra áskorunin fyrir suma er líka að halda sér vakandi.“ Farið er upp Kambana og meðal viðkomustaða hlauparanna er Ölkelduhálsinn, Innstidalur, Sleggjubeinaskarð og Vörðuskeggi, sem er hæsti punkturinn í Henglinum.

Um 70 þátttakendur ætla síðan að hlaupa 50 km leiðina, sem er ræst út í í fyrramálið, og þá hefur einnig fjölgað verulega í 25 km vegalengdinni. „Það eru um 180 sem eru að fara að hlaupa 25 km sem er ótrúlega skemmtileg leið sem nær yfir fyrstu 13 km af stóru hlaupunum. Það verður fullt af frábærum hlaupurum sem taka þátt í því,“ segir Þorsteinn og kveður þann hluta hlaupaleiðarinnar bæði áhorfendavænan og skemmtilegan.

Hlauparar koma frá 17 löndum og fjórum heimsálfum sérstaklega til …
Hlauparar koma frá 17 löndum og fjórum heimsálfum sérstaklega til að taka þátt í 100 og 50 km vegalengdunum. Ljósmynd/Aðsend

10 og 5 km hlaupaleiðirnar segir Þorsteinn líka vera þægilegar fyrir þá sem vilja prufa utanvegahlaup. „Þetta er skemmtilegur hringur rétt fyrir ofan Hveragerði,“ útskýrir hann og kveður til að mynda hægt að taka með sér krakka sem vilja prófa utanvegahlaup, eða einfaldlega fyrir þá sem vilja prófa sjálfir og upplifa stemninguna. „Þá er alveg hægt að mæla með þessum hlaupum fyrir venjulegt fólk.“

Hann á líka von á miklu fjöri í Hveragerði þegar hlaupararnir koma í mark síðdegis á morgun. „Veðurspáin lofar góðu og það ætti að vera gott hlaupaveður.“

Frekari upplýsingar um hlaupið má finna hér.

Hlaupari fagnar við marklínuna í fyrra.
Hlaupari fagnar við marklínuna í fyrra. Ljósmynd/Facebook Hengill Ultra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert