Stjórnarhættir ekki til fyrirmyndar

Frá keppninni Kokkur ársins 2017.
Frá keppninni Kokkur ársins 2017. mbl.is/Eggert

„Það eru allir að hugsa sig um. Þetta var gert án samþykkis liðsins og mér finnst stjórnarhættirnir ekki hafa verið til fyrirmyndar,“ segir Garðar Kári Garðarsson sem sagði sig úr kokkalandsliðinu, ásamt öllum öðrum liðsmönnum þess, í kjölfar þess að Klúbbur matreiðslumeistara (KM), sem rekur kokkalandsliðið, undirritaði styrktarsamning við Arnarlax.

KM sendi frá sér yfirlýsingu nú fyrir hádegi þess efnis að klúbburinn hefði rift samningnum við Arnarlax. Garðar Kári hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann dragi úrsögn sína til baka í ljósi tíðindanna.

Garðar Kári Garðarsson.
Garðar Kári Garðarsson. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ætla að bakka aðeins og sjá hvað gerist. Það fór mikið fyrir brjóstið á mér að þeir skyldu semja við Arnarlax fyrir það fyrsta. Það er mér hjartans mál að farið sé með náttúruna af virðingu.“

Hann segist þó auðvitað aðeins tala fyrir sjálfan sig en ekki landsliðið í heild. „Þetta fer mismikið fyrir brjóstið á fólki. Stór hluti hópsins hefði aldrei tekið þetta í sátt hefði þetta verið borið undir okkur.

Ég er ekki að fara að taka neinar stórar ákvarðanir akkúrat núna. Þetta eru allt vinir mínir í stjórn KM en ég vil að samstarf okkar verði byggt á meiri hreinskilni í framtíðinni,“ segir Garðar Kári.

Sturla snýr aftur í KM

Sturla Birgisson, fyrrverandi meðlimur og þjálfari kokkalandsliðsins, trúir því og vonar að liðsmenn dragi úrsögn sína úr liðinu til baka. Sjálfur sagði hann sig úr KM í kjölfar fregnanna en segir riftingu samningsins við Arnarlax vera nóg til þess að hann sé tilbúinn að snúa aftur.

„Ég vona að þetta sé nóg til að þau komi til baka og vinni sína vinnu og standi sig vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert