Tryggingafræðileg staða stærstu lífeyrissjóða landsins hefur versnað nokkuð frá árslokum 2016 vegna hríðlækkandi hlutabréfaverðs Icelandair Group.
Tryggingafræðileg staða sjóðanna ákvarðar getu þeirra til þess að standa undir skuldbindingum sínum til framtíðar. Sé staðan jákvæð gefur það til kynna að sjóðirnir eigi eignir umfram skuldbindingar.
Þannig hefur lækkun bréfa Icelandair lækkað tryggingafræðilega stöðu Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem nemur 1,1 prósentustigi á síðustu 20 mánuðum. Um nýliðin áramót var tryggingafræðileg staða sjóðsins jákvæð sem nam 6,4%. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver tryggingafræðileg staða sjóðsins er í dag. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti einstaki hluthafi Icelandair með tæplega 14% hlut.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er næststærsti eigandinn. Tryggingafræðileg staða A-deildar hans hefur lækkað um 0,72 prósentustig síðustu 20 mánuði en staða B-deildarinnar hefur versnað um 0,3 prósentustig, að því er fram kemur í umfjöllun um áhrif lækkunar hlutabréfa Icelandair í Morgunblaðinu í dag.