Mikill áhugi er á greiningarsýningunni á ljósmyndum Alfreðs D. Jónssonar sem opnuð verður í Þjóðminjasafninu í dag. Morgunblaðið birti nokkrar myndanna, sem eru frá fyrri hluta síðustu aldar, á fimmtudaginn og í gær hafði tekist að nafngreina fólk á þremur þeirra með hjálp lesenda blaðsins.
Að sögn Kristínar Höllu Baldvinsdóttur hjá Þjóðminjasafninu er mynd á bls. 28 af barnahópi af börnum Þórsteinu Jóhannsdóttur og Páls Sigurgeirs Jónassonar sem búsett voru að Þingholti í Vestmannaeyjum. Börn þeirra á myndinni eru í aldursröð: Emil, Kristinn, Tóta, Jón, Guðni, Margrét, Kristín og Hulda.
Ljósmynd af foreldrum og tveimur börnum á bls. 26 er af fjölskyldu sem lengi bjó í Stykkishólmi og rak þar veitingasölu svo og á Vegamótum. Á myndinni eru hjónin Steinunn Ólína Þórðardóttir og Jón Sigurgeirsson bifreiðastjóri og veitingamaður og börn þeirra Hrefna Erna og Sæbjörn.
Á mynd af hjónum með átta börn sín á sömu bls. eru Ingibjörg Bjarnadóttir af Túnsætt í Flóa og Hallmundur Bjarnason af Brandhúsaætt. Börn þeirra eru í efri röð talið frá vinstri: Agnes, Bjarni, Einar, Andrés og Magnea. Neðri röð frá vinstri: Þórunn, Hallberg og Ingveldur.
Sýningin í Þjóðminjasafninu verður opnuð kl. 14 í dag og er aðgangur ókeypis.