Heilbrigðisráðuneytið ákvað í morgun að setja þegar í stað 25 milljónir í að fylgja eftir aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þegar hún setti málþing með yfirskriftinni Stöndum saman gegn sjálfsvígum í húsakynnum Decode í dag. Málþingið var haldið í tilefni Alþjóðlegs forvarnardags sjálfsvíga.
Starfshópur sem hafði það hlutverk að fara yfir gagnreyndar aðferðir til að fækka sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum ungmenna var skipaður af landlækni í september á síðasta ári og skilaði hann tillögum að aðgerðaráætlun í maí. Aðgerðaráætlunin inniheldur yfir fimmtíu tillögur í sex flokkum og hefur heilbrigðisráðherra fallist á þær allar.
Svandís sagði geðheilbrigðismál áhugamál alls samfélagsins vegna brýnnar og aðkallandi þarfar, og að mikilvægt væri að hugsa um hvern og einn einstakling, en ekki bara kerfin, og að geðheilbrigðisþjónusta yrði eins samfelld, skiljanleg og aðgengileg og kostur væri.
Í kjölfar ávarps Svandísar hélt Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, erindi um rannsókn á sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígstilraunum sem gerð var á íslenskum framhaldsskólanemum frá 2000 til 2016. Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar var kynnt í síðustu viku, en þar kom meðal annars fram að þriðjungur stúlkna og hátt í fjórðungur drengja sem voru í framhaldsskóla árið 2016 höfðu í alvöru hugleitt sjálfsvíg, alls 2.834 ungmenni.
Meðal þess sem fram kom í máli Sigrúnar var að samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er sjálfsvígstilraun vinar eða einhvers nákomins sterkasti sjálfsæði áhrifaþátturinn fyrir tilraun til sjálfsvígs. Sagði Sigrún að ekki væri endilega um orsakasamhengi að ræða, en engu að síður væri mikilvægt að ungmenni væru undirbúin til að takast á við umræðu um sjálfsvíg.
Skýrsla embættis landlæknis um sjálfvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir
Þess má geta að í tilefni Alþjóðlegs forvarnardags sjálfsvíga verða haldnar kyrrðarstundir í minningu þeirra, sem hafa tekið eigið líf, í Dómkirkjunni, Akureyrarkirkju, Egilsstaðakirkju og Selfosskirkju í kvöld klukkan 20.