Orkuskiptin efnahagslegt sjálfstæðismál

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, sagði aðgerðaáætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ekki bara til þess fallna að tak­ast á við þær áskor­an­ir og ógn­ir sem steðja að mann­kyn­inu vegna lofts­lags­breyt­inga, held­ur myndi aðgerðaáætl­un­in einnig stuðla að betra lífi og sjálf­bær­ari til­veru á Íslandi.

Þessi orð lét Bjarni falla á blaðamanna­fundi í Aust­ur­bæj­ar­skóla í dag, þar sem sjö ráðherr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar kynntu í sam­ein­ingu nýja aðgerðaáætl­un í lofts­lags­mál­um. Rík­is­stjórn­in legg­ur þar fram 34 aðgerðir sem ráðist verður í, en 6,8 millj­örðum króna verður varið til ým­issa verk­efna á næstu fimm árum, þar af 1,5 millj­örðum í að hraða orku­skipt­um í vega­sam­göng­um, t.d. með upp­bygg­ingu innviða fyr­ir raf­bíla.

„Það er í því fólgið stór­kost­legt tæki­færi fyr­ir okk­ur ef við náum að taka þess­ar tækni­breyt­ing­ar til hand­ar­gagns við að byggja sam­göng­ur í land­inu á sjálf­bær­um inn­lend­um orku­gjöf­um, í stað þess að sækja ork­una til annarra landa í formi olíu. Það eitt og sér er efna­hags­legt sjálf­stæðismál,“ seg­ir Bjarni í sam­tali við mbl.is, en sam­kvæmt aðgerðaáætl­un­inni er talið raun­hæft að stefna að því að allri brennslu jarðefna­eldsneyt­is verði hætt hér á landi um miðja öld­ina.

„Við höf­um séð það til dæm­is á und­an­förn­um árum í Banda­ríkj­un­um að þar hef­ur verið lögð auk­in áhersla á að tryggja efna­hags­legt sjálf­stæði Banda­ríkj­anna með því að vinna meira af olíu í stað þess að flytja hana inn. Þetta er ekk­ert ósvipuð hugs­un sem að ég er að koma frá mér, það er að segja, að það að geta nýtt eig­in orku­gjafa er stór­kost­legt efna­hags­legt sjálf­stæðismál fyr­ir ríki. Við höf­um ekki haft tæki­færi til þess að gera stóra hluti í þessu í sam­göng­um fram til þessa, þar sem tækn­in hef­ur ekki verið til staðar, en hún er núna á fleygi­ferð, er kom­in og mun á næstu árum fyr­ir­sjá­an­lega halda áfram að þró­ast,“ seg­ir Bjarni.

Það var létt yfir ráðherrunum sjö á blaðamannafundinum í Austurbæjarskóla …
Það var létt yfir ráðherr­un­um sjö á blaðamanna­fund­in­um í Aust­ur­bæj­ar­skóla í dag. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

„Ég trúi því að fyr­ir árið 2030 verði út­litið í þess­um mál­um allt allt annað en við sjá­um í dag,“ bæt­ir Bjarni við, en í aðgerðaáætl­un stjórn­valda er sú aðgerð, að stefna að banni gegn ný­skrán­ingu bens­ín- og dísil­bíla eft­ir 2030, ekki síst sögð mik­il­væg vegna þeirra skila­boða sem í henni fel­ist fyr­ir bíla­fram­leiðend­ur.

En tel­ur Bjarni að bíla­fram­leiðend­ur verði al­mennt hætt­ir að fram­leiða bíla sem ganga ein­ung­is fyr­ir jarðefna­eldsneyti eft­ir tólf ár?

„Ég ætla kannski ekki að spá því. Á ein­staka svæðum og ein­staka lönd­um er orku­öfl­un­in orðið sjálf­stætt vanda­mál. Það er nú kannski ekki mikið unnið fyr­ir sum ríki að fara að brenna olíu eða kol­um til að fram­leiða raf­magn svo hægt sé að nota raf­magns­bíl, svo það má al­veg gera ráð fyr­ir því að ein­hverj­ir verði eft­ir­bát­ar okk­ar á þeim tíma, en ég held hins veg­ar að bíla­fram­leiðend­ur muni hafa náð mjög mikl­um fram­förum frá því sem við sjá­um í dag eft­ir þenn­an rúma ára­tug og það eru mik­il tæki­færi í því fyr­ir okk­ur að nýta okk­ur þá breyt­ingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert