Ræða um borgarlínu á næstu vikum

Sigurður Ingi segir að horfa verði á fjölbreytta samgöngumáta til …
Sigurður Ingi segir að horfa verði á fjölbreytta samgöngumáta til að ná árangri í loftslagsmálum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Töluvert er talað um almenningssamgöngur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem birtist í dag. Þó er ekki talað berum orðum um borgarlínuverkefnið, sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) settu á dagskrá, en borgarlínan er samstarfsverkefni þeirra um nýtt og afkastamikið kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, segir í samtali við mbl.is að á næstu vikum muni ríkið ræða við SSH um borgarlínuverkefnið. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stutt verði við borgarlínu og það segir Sigurður Ingi að hafi ekki síst verið gert með tilliti til loftslagsmála.

„Ef við ætlum að ná árangri í loftslagsmálum þá þurfum við að horfa á allar samgöngur, fjölbreyttari samgöngumáta og þar með taldar almenningssamgöngur, ekki síst þar sem flestir búa,“ segir Sigurður Ingi.

Efling á almenningssamgöngum og efling hjólreiða og göngu sem samgöngumáta er í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sagður mikilvægur þáttur í að draga úr losun. Í áætluninni segir jafnframt að huga þurfi að samgöngumiðuðu skipulagi sem geri aðra ferðamáta en einstaklingsbíla að raunhæfum valkostum. Þá sé mikilvægt að breyta ferðavenjum, „gera þær fjölbreyttari með öflugum almenningssamgöngum, deilihagkerfislausnum og styrkingu innviða fyrir gangandi og hjólandi.“

Ríkið mun ræða við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu …
Ríkið mun ræða við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu og fleiri samgönguframkvæmdir á næstu vikum. Mynd úr morgunumferðinni í Reykjavík á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jafnframt segir að lög og reglugerðir verði endurskoðaðar til að styðja við nýjar lausnir í samgöngu- og deiliþjónustu, sem geti auðveldað þeim það vilja að lifa „bíllausum lífsstíl“. Allt rímar þetta nokkuð vel við markmiðin sem SSH setja sér í tengslum við borgarlínuverkefnið.

Aðgerðaáætlun væntanleg

Sigurður Ingi segir að það eigi eftir að „forma“ samtal ríkisins og SSH betur, en að verði gert á næstu vikum. Í kjölfarið verði aðilar væntanlega búnir að sjá fyrir sér einhverja aðgerðaáætlun í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, ekki bara með tilliti til almenningssamgangna heldur annarra samgönguframkvæmda einnig.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður kynnt á morgun og segir Sigurður Ingi að þar muni sú áhersla sem ríkisstjórnin ætli að leggja á uppbyggingu almenningssamgangna sjást, þó að hann vilji ekki gefa meira upp um það að sinni.

„Við skulum bíða til morguns með að sjá það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert