Ríkisstjórnin hefur lagt áform sín um að fella niður virðisaukaskatt af bókum á hilluna, samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Í staðinn er lagt til að tekinn verði upp beinn stuðningur við bókaútgefendur „til að mæta því meginmarkmiði að efla íslenska tungu“.
Áform um að fella niður virðisaukaskatt af bókum má bæði finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í fjármálaáætlun 2019-2023. Fram kemur að helsta ástæðan fyrir því að ekki verði ráðist í þetta sé sú að nauðsyn beri til viðhalda skilvirkni gildandi virðisaukaskattskerfis.
Það að taka upp „núllþrep“ fyrir bókaútgáfu er sagt draga úr þessari skilvirkni VSK-kerfisins, auk þess að flækja það.
„Niðurstaðan er sú að í stað þess að afnema VSK verði tekinn upp sérstakur stuðningur við útgefendur bóka á íslensku. Frumvarp þess efnis er lagt fram samhliða fjárlagafrumvarpinu. Með hliðsjón af þeim markmiðum sem um ræðir ætti hin breytta útfærsla að skila engu síðri árangri með minni tilkostnaði fyrir ríkissjóð,“ segir í greinargerð fjárlagafrumvarpsins.