Allir neita sök í gagnaversmálinu

Sindri mætti fyrir dómara í dag og neitaði sök.
Sindri mætti fyrir dómara í dag og neitaði sök. mbl.is/Eggert

Allir þeir sem ákærðir eru í einu stærsta þjófnaðarmáli síðari ára hér á landi, þar sem meðal annars var stolið 600 öflugum bitcoin-leitarvélum í lok síðasta árs og upphafi þessa, neituðu sök í máli sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum höfðaði á hendur þeim. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær þar sem tveir ákærðu komu fyrir dómara og neituðu sök. Í gær var einnig aflétt farbanni yfir einum ákærða.

Hinir fimm, þar á meðal Sindri Þór Stefánsson sem strauk úr fangelsinu á Sogni í vor, komu fyrir dómara í dag og neituðu jafnframt sök. Þá höfnuðu þeir allir bótakröfu í málinu. Sindri er áfram í farbanni.

mbl.is/Eggert

Alda Hrönn Jóhannsdóttir lagði fram skjöl í fimm liðum fyrir hönd lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir dóminn í dag, þar á meðal sakavottorð eins ákærða og skýrslu um notkun símtækja og símanúmera ákærðu. Einnig upplýsingaskýrslu vegna samtals tveggja ákærðu.

Ákæra í mál­inu var gef­in út í byrj­un júlí, en hún var ekki birt sak­born­ing­um fyrr en í lok ágúst og varðar inn­brot í fjög­ur gagna­ver þrjár næt­ur í des­em­ber og janú­ar og til­raun­ir til tveggja inn­brota í viðbót. Yfir tvö þúsund tölvuíhlut­um er sagt hafa verið stolið í inn­brot­un­um.

mbl.is/Eggert

Fyrst var brot­ist inn dag­ana 5. og 6. des­em­ber í gagna­ver Al­grim Consulting slf. og BDC Min­ing ehf., sem bæði eru á Ásbrú. Þá hafi verið reynt, án ár­ang­urs, að fara inn í annað gagna­ver BDC Min­ing  á tíma­bil­inu 5.-10. des­em­ber.

Aðfaranótt 15. des­em­ber hafi svo verið farið inn í gagna­ver AVK ehf. í Borg­ar­nesi og aðfaranótt ann­ars í jól­um hafi aft­ur verið reynt við bæði gagna­ver BDC Min­ing ehf. á Ásbrú. Menn­irn­ir hafi hins veg­ar flúið er þjófa­varna­kerfi fór í gang.

Síðasta inn­brotið var svo framið aðfaranótt 16. janú­ar og var það í gagna­veri Advania Data Center á Ásbrú. Ákærðu munu hafa dulbúið sig sem öryggisverði þegar þeir brutust inn í eitt gagnaverið.

Lögmenn fá frest til að skila greinargerð í málinu til 4. október næstkomandi.

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert