CLN-málinu vísað frá

Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, …
Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller, hdl. og aðstoðarmaður verjanda, Sigurður Einarsson og Gestur Jónsson hrl. og verjandi Sigurðar. mbl.is/Golli

Héraðsdómur hefur úrskurðað um að vísa CLN-málinu svokallaða frá dómi, en málið er einnig þekkt sem Chesterfield-málið. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Héraðssaksóknari hefur kært þá niðurstöðu til Landsréttar sem mun taka úrskurðinn fyrir síðar.

Málið er eitt af svokölluðum hrunmálum, en því voru stjórnendur Kaupþings ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa lánað 508 milljónir evra frá ágúst til október 2008 til tveggja félaga sem keyptu lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche bank sem tengd voru skuldatryggingaálagi Kaupþings. Sagði saksóknari að markmiðið hefði verið að lækka skuldatryggingaálag bankans.

425 milljóna greiðsla setti málið í uppnám

Allir hinna ákærðu voru sýknaðir í héraðsdómi og var málinu áfrýjað til Hæstaréttar. Áður en málið var tekið fyrir þar komu nýjar upplýsingar fram um að Deutsche bank hefði greitt þrotabúi Kaupþings stóran hluta upphæðarinnar, eða 425 milljónir evra. Ekki komu þó fram ástæður þess að upphæðin var greidd.

Þar sem ástæður greiðslunnar lágu ekki fyrir taldi Hæstiréttur að rannsaka þyrfti þessi atriði betur þar sem það gæti haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðum umboðssvika væri fullnægt við ákvörðun um refsihæð ef skilyrði fyrir sakfellingu yrðu talin fyrir hendi. Var sýknudómurinn og meðferð málsins í héraði því ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný. Hóf ákæruvaldið því rannsókn á málinu að nýju með það fyrir augum að fá glögga mynd af ástæðum þess að Deutsche bank greiddi þessar upphæðir til Kaupþings og félaganna tveggja.

Vita ekki með vissu af hverju þeir fengu 425 milljónir evra

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að héraðssaksóknari hafi ritað þrotabúi Kaupþings bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um ástæður greiðslna frá Deutsche bank til Kaupþings og félaganna Chesterfield og Partridge sem höfðu staðið í viðskiptunum á sínum tíma. „Kaupþing ehf. svaraði því til að það vissi ekki með vissu, eins og það er orðað, af hverju þýski bankinn hefði greitt þessar fjárhæðir,“ segir í úrskurðinum.

Héraðssaksóknari spurði þá á hvaða grundvelli þrotabú Kaupþing hefði reist málsóknir sínar á hendur þýska bankanum vegna viðskiptanna. Var gerð grein fyrir þremur dómsmálum sem Kaupþing hafði rekið gegn Deutsche bank. Þá sagði í svarinu að greiðslurnar til Kaupþings og félaganna hefðu verið til fulls og endanlegs uppgjörs vegna allra þeirra krafna sem bankinn og félögin hefðu haft uppi á hendur Deutsche bank í framangreindum dómsmálum.

Lögmaðurinn sagði greiðslurnar ekki skaðabætur

Héraðssaksóknari tók einnig skýrslu af lögmanni Deutsche bank sem sagði að gengið hefði verið til samningaviðræðna við þrotabúið og félögin tvö vegna málshöfðananna. Með greiðslunum hefði ekki falist viðurkenning á ólögmætri háttsemi Deusche bank. Sagði hann upphæðirnar hafa komið frá Kaupþingi og fjárhæðin að lokum niðurstaða af samningaviðræðum. Neitaði hann því til að greiðslurnar hefðu verið skaðabætur.

Verjendur ákærðu í málinu, þeirra Hreiðars Más Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, og Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, fóru fram á að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, þar sem þeir töldu rannsóknina ekki svara þeim atriðum sem Hæstiréttur taldi að svara þyrfti. Spurðu þeir hvort stjórnendur Deutsche bank hefðu verið spurðir út í ákvörðun þess að greiða umræddar upphæðir til þrotabúsins. Sagði ákæruvaldið hins vegar gögnin tæmandi afrakstur lögreglurannsóknar.

Ákæruvaldið ekki rannsakað málið sem skyldi

Í úrskurði héraðsdóms segir að ekki verði sé að leitað hafi verið eftir upplýsingum frá skiptastjórum Chesterfield og Partridge um greiðslurnar. Þá er vísað til þess að lögmaður Deutsche bank hafi í yfirheyrslunni annars vegar sagt að bankinn hefði greitt upphæðirnar til að bregðast við dómkröfum um riftun og skaðabætur, en síðar sagt að ekki væri um skaðabætur að ræða. Segir í úrskurðinum að lögmaðurinn hafi ekki verið spurður nánar út í þetta ósamræmi.

„Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ákæruvaldið hafi ekki rannsakað sem skyldi þau atriði sem Hæstiréttur taldi að rannsaka þyrfti.“ Er málið því á sama stað og er Hæstiréttur ómerkti fyrri dóm og óskaði eftir frekari rannsókn. Telur héraðsdómur því að vísa þurfi málinu frá. Þarf ríkissjóður að greiða verjendum ákærðu tæplega þrjár milljónir vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka