Endurgreiða 25% kostnaðar við bókaútgáfu

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun mæla fyrir frumvarpi um …
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun mæla fyrir frumvarpi um endurgreiðslu kostnaðar við bókaútgáfu í næstu viku. mbl.is/RAX

Ríkisstjórnin ætlar að endurgreiða bókaútgefendum 25% af öllum beinum kostnaði við útgáfu bóka frá og með 1. janúar 2019, segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við mbl.is. Hún mun leggja fram frumvarp þessa efnis í næstu viku.

„Í raun og veru er þessi stuðningur meiri en að afnema virðisaukaskattinn,“ segir Lilja í samtali við mbl.is, en í fjármálafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var greint frá því að áform um afnám VSK af bókum, sem ríkisstjórnin lofaði í stjórnarsáttmála sínum, hefðu verið lögð á hilluna. Ráðherra segir að bókaútgefendur séu betur settir með þessum beina stuðningi.

„Hann er mjög markviss vegna þess að hann fer á útgáfu allra bóka sem gefnar eru út á íslensku, þannig að í raun er þetta sigur bókarinnar,“ segir Lilja. „Ég er þannig í pólitík og í lífinu yfir höfuð, að ef ég sé aðferð sem gæti hugsanlega verið markvissari og skilað meiri árangri þá er ég svo sannarlega tilbúin að huga að markmiðinu fyrst og síðast, en ekki endilega aðferðinni.“

Gerir ráð fyrir því að verð bóka lækki

„Þetta er tímamótaaðgerð, þetta hefur aldrei verið gert áður og ég er sannfærð um að þetta sé betri leið, þetta er markvissari leið og þetta verður til þess að styðja við íslenskuna og umgjörðina,“ segir Lilja, sem gerir ráð fyrir því að verð bóka lækki í kjölfar þess að endurgreiðslur til bókaútgefenda verði teknar upp.

Markmið frumvarpsins er að efla útgáfu á íslenskri tungu og segir Lilja að það verði ekkert þak á endurgreiðslunum, sem ráðherra vonar að verði til þess að snúa við þeirri þróun sem hefur átt sér stað varðandi bókaútgáfu, en á síðustu 10 árum hefur orðið um 40% samdráttur í bóksölu.

„Við erum bókaþjóð og við ætlum að vera áfram bókaþjóð,“ segir ráðherra.

Bein endurgreiðsla til bókaútgefenda er markvissari leið að sama markmiði …
Bein endurgreiðsla til bókaútgefenda er markvissari leið að sama markmiði og niðurfelling virðisaukaskatts, segir Lilja. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert