Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun kynna ýmsar aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja íslenska tungu á blaðamannafundi í Veröld - húsi Vigdísar, á morgun kl. 14. Þar verða meðal annars kynntar aðgerðir er varða stuðning við einkarekna fjölmiðla.
Í fréttatilkynningu segir að til grundvallar aðgerðunum sé eindreginn vilji stjórnvalda til þess að tryggja framgang og framtíð íslenskunnar, meðal annars með stuðningi við íslenska bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun.
Lilja ræddi við mbl.is áðan um fyrirhugaðan stuðning stjórnvalda við íslenska bókaútgáfu, en vildi aðspurð ekki gefa neitt upp um það hvernig stutt yrði við einkarekna fjölmiðla, en unnið hefur verið að aðgerðaáætlun sem ætlað er að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi um nokkurt skeið.