Hrun blasir við í loðdýrarækt á Íslandi, nema utanaðkomandi aðstoð komi til. Samband íslenskra loðdýrabænda hefur átt í viðræðum við stjórnvöld um möguleika á aðstoð til að halda lífi í greininni.
Vegna þriggja magurra ára og sífellt lækkandi verðs minkaskinna á heimsmarkaði og hækkandi framleiðslukostnaðar hér á landi er fjárhagsstaða loðdýrabænda orðin það slæm að allir eru farnir að íhuga stöðu sína, hvort þeir treysti sér til að halda áfram eða hvort ráðlegt sé að hætta. Útslagið gerir síðasta uppboð ársins þar sem verðið fellur enn. Niðurstaða ársins í heild er 20% verðlækkun frá síðasta ári.
„Það er búið að fjárfesta gífurlega í greininni, í búrum, húsum og lífdýrum, og bændur hafa aflað sér þekkingar og reynslu. Við erum með aðra eða þriðju bestu framleiðslu í heiminum. Sú þekking og fjárfesting tapast öll ef þetta fer til verri vegar,“ segir Einar Eðvald Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda í umfjöllun um erfiðleika loðdýrabænda í Morgublaðinu í dag. Rökin eru einnig þau að framleiðslan sé umhverfisvæn þar sem í fóðrið er notaður úrgangur frá matvælaframleiðslu sem annars þarf að urða með ærnum kostnaði.