Umhverfisstofnun telur ljóst að umferð um svæði lands Ártungu og Efri-Reykja við Brúará í Biskupstungum sé svo mikil að merki séu um átroðning og að verði umferð áfram með sama móti sé nauðsynlegt að bregðast við. Stýringu umferðar um svæðið segir stofnunin ekki viðeigandi, ekki heldur leiðbeiningar til ferðamanna. Í skýrslu Umhverfisstofnunar sem gerð var í kjölfar úttektar á svæðinu kemur samt sem áður fram að land Ártungu meðfram ánni sé kjarri vaxið og gróið og gróður almennt í góðu ástandi.
Samkvæmt lögum um náttúruvernd getur Umhverfisstofnun takmarkað umferð eða lokað svæði vegna hættu á gróðurskemmdum, en sú takmörkun skal að jafnaði ekki standa lengur en í tvær vikur nema nauðsyn krefji. Umhverfisstofnun telur ólíklegt að tveggja vikna lokun á gönguleið meðfram Brúará í Ártungu breyti miklu varðandi gróður svæðisins ef tíðarfar helst óbreytt.
Landeigendur í Ártungu tóku til þess neyðarúrræðis í lok júlí að setja upp skilti og banna alla umferð gangandi um land sitt. Þar að auki fjarlægðu þeir göngubrýr á gönguleið sem og stiga yfir girðingu.
Í skýrslu Umhverfisstofnunar segir að aðgerðir landeigenda Ártungu við að beina umferð gangandi fólks fram hjá landi sínu hafa valdið því að göngufólk fari ekki lengur göngustíg meðfram ánni. Þess í stað sveigir fólk hjá landi Ártungu og fer um lítt raskað svæði.
Umhverfisstofnun hefur sent landeiganda leiðbeiningar um ákvæði um för almennings um ræktað land og um rétt til umferðar um árbakka, en telur mikilvægt að landeigendur og sveitarfélagið Bláskógabyggð skoði mögulegar lausnir í sameiningu. „Ekki er um að ræða viðeigandi stýringu umferðar um svæðið í dag eða viðeigandi leiðbeiningar til ferðamanna.“