Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld gagnrýni á útgjaldavöxt íslenska ríkisins. Sagði hann útgjöld „ekki hafa vaxið sem nokkru nemur sem hlutfall af landsframleiðslu“ og á meðan útgjöld ríkisins aukist ekki hlutfallslega sé ekki hægt að segja að báknið sé að vaxa.
Bjarni sagði í ræðu sinni að viðbrögðin við fjárlagafrumvarpinu væru í raun mótsagnakennd þar sem bæði heyrðist að ríkið gerði ekki nóg og að ríkið tæki of mikið til sín. Mikilvægt væri þó að spyrja sig að hvoru tveggja, enda megi ekki ausa fjármunum í ýmsa málaflokka án þess að spyrja um árangur.
Nefndi hann að ríkið væri að leggja grunn að endurmati útreikninga með greiningu á útgjöldum málaflokka og verkefni þar sem tekið verður til skoðunar hvað valdi aukningu útgjalda á hverju sviði, en slík aðferð hefur reynst vel til að forgangsraða fjármunum upp á nýtt, sagði Bjarni. Þá sagði hann fjárlagafrumvarpið sem nú er lagt fram það árangursmiðaðasta sem lagt hefði verið fram.
Bjarni benti á að búið væri að greiða upp öll lán ríkisins sem tengdust efnahagslegri aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og á næsta ári yrði lokið við uppgreiðslu lána sem komu til vegna endurreisnar fjármálakerfisins. Loks næst með fjárlagafrumvarpinu í fyrsta sinn skuldaviðmið opinberra fjármála.
Þá vék Bjarni að framtíðinni í ræðu sinni og sagði að rík áhersla hefði verið lögð á að búa í haginn fyrir framtíðina á undanförnum árum. Sagði hann ríkissjóð hafa létt af sér skuldum upp á 660 milljarða króna og greitt fyrirfram inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar 140 milljarða til viðbótar. „800 milljörðum hefur verið ráðstafað í þetta verkefni, að búa í haginn fyrir framtíðina,“ sagði Bjarni.