Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í eldhúsdagsumræðum það miður að verkefni sem væru til umræðu á Alþingi á hverjum tíma væéu gjarnan metin að verðleikum eftir fjárheimildum, líkt og að ekki væri hægt að taka framfaraskref án þess að þess sæi stað í fjárlögum næsta árs.
„Sem betur fer er það ekki svo,“ sagði Sigríður. „Ég mun á þessum vetri leggja fram frumvarp sem gengið hefur undir vinnuheitinu rafrænar þinglýsingar,“ sagði Sigríður áður en hún hélt áfram og sagði að vinnuheitið væri þó ekki alveg réttnefni þar sem þegar kæmu rafrænar færslur við sögu þinglýsinga.
„Ef frumvarpið væri hins vegar kallað nafni sem lýsti nákvæmlega efni þess hefur mér verið sagt að það myndi ekki fanga athygli annarra en þeirra sem starfa við þinglýsingar. Þeir eru jafnvel einhverjir hér í þessum sal sem hafa sagt mér að þetta mál hljómi jafnspennandi og síðasta mínúta tveggja síðustu landsleikja strákanna okkar. En þetta mál er spennandi. Það mun bylta aldagömlum aðferðum í opinberri þjónustu sem líklegast allir þurfa á að halda á einhverjum tíma,“ sagði hún.
Sigríður sagði markmiðið vera að stytta afgreiðslutíma, auka aðgengi að þjónustu við borgara, lágmarka mistök við veitingu þjónustunnar og draga úr kostnaði. „Á þessu ári kynnti fjármálaráðherra rafræna álagningarseðla sem hafa veitt skattgreiðendum aukna og skýrari sýn inn í ráðstöfun skattgreiðslna. Í heilbrigðismálum er rafræn þjónusta sívaxandi. Þá hefur ferðamálaráðherra boðað frekari hagnýtingu rafrænna miðla við leyfisveitingar og skráningar í ferðaþjónustu. Við munum í mjög náinni framtíð auka mjög skilvirkni í opinberri þjónustu með rafrænum hætti,“ sagði Sigríður.
Hún lauk ræðu sinni á því að segjast ekki vera sérlegur talsmaður þverpólitískrar samstöðu og uppskar nokkurn hlátur úr þingsal fyrir, en sagðist þó vænta þess að Alþingi fagnaði tækifærum til að bæta opinbera þjónustu með nútímatækni.