Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi að á tímum þar sem hatursöflum yxi ásmegin víða um lönd skipti öllu máli að stjórnmálahreyfingar og flokkar gættu að meginreglum lýðræðis og mannréttinda, spyrntu fast á móti heimsku og valdníðslu og freistuðust ekki til að laga málflutning sinn að heiftinni og hatrinu.
Svandís sagði að stjórnarsáttmáli VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks snerist að hennar mati um þrjá meginstrauma. Áherslur í anda jöfnuðar og félagshyggju, framsýnar áætlanir í stórum málum nýrrar aldar; umhverfis- og loftslagsmál og eflingu Alþingis með stóraukinni áherslu á þverpólitíska vinnu í stórum stefnumarkandi málum.
„Sagt hefur verið að efnahagslegur stöðugleiki eigi að vera grunnurinn að góðu samfélagi en félagslegur stöðugleiki er ekki síður mikilvægur. Að fólk megi treysta því að keppt sé að jafnrétti og jöfnuði og að innviðir samfélagsins haldi,“ sagði Svandís.
Hún benti á að á hennar borði sem heilbrigðisráðherra væri einn mikilvægasti hluti félagslegs stöðugleika; heildstæð og skynsamleg heilbrigðisþjónusta sem hefur sjúklinginn og samfélagið í forgrunni. „Draga á úr greiðsluþátttöku sjúklinga og nálgast það sem gerist í þeim efnum annars staðar á Norðurlöndunum,“ sagði Svandís.
Ráðherra bætti því við að heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefði lengi liðið fyrir lausatök og skertar fjárveitingar.
„Með því að setja fram vandaða heilbrigðisstefnu, tryggja trausta og öfluga þjónustu opinberra sjúkrahúsa, efla göngudeildir og treysta heilsugæsluna um allt land en líka með því að skýra samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og stuðningi við sjúka og aldraða gegnum Sjúkratryggingar Íslands, þar sem markmið samninganna og ætlaður árangur af þeim liggja ljós fyrir og gæðakröfur eru skýrar, þar sem skýrt er hvaða þjónustu skuli veita og hvar skuli inna hana af hendi, þannig nálgumst við heildstæðara kerfi og markvissari og betri þjónustu fyrir alla,“ sagði Svandís.
„Við ætlum að sækja fram á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu og forvarna, stilla saman strengi og krafta allra þeirra sem vinna að bættri heilsu og öryggi landsmanna hvar sem þeir búa og hvernig sem efnahag þeirra er háttað.“