„Góðærið hefur ekki náð til allra“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi …
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld að stjórnvöld hefðu undanfarin ár ekki nýtt fordæmalítið svigrúm til að jafna kjör nægilega og auka félagslegan stöðugleika. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ýmislegt bendir til að við séum á leið niður í dal eftir að hafa verið á tindi hagsveiflu í langan tíma. Komandi mánuðir eru afgerandi,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Hann sagði að stjórnvöld hefðu undanfarin ár ekki nýtt fordæmalítið svigrúm til að jafna kjör nægilega og auka félagslegan stöðugleika. 

„Það þarf ekki sterka raunveruleikatengingu til að sjá að góðærið hefur ekki náð til allra. Stór hópur fólks upplifir það fyrst og fremst í gegnum meðaltöl, glanstímarit eða fréttir af launahækkunum tekjuhárra, meðal annars okkar,“ sagði Logi.

Stjórnvöld hafa hrifsað ávinning af launahækkunum

Logi sagði að stjórnvöld þyrftu að koma með afgerandi hætti að lausn kjarasamninga sem er framundan. Hann gagnrýndi seinaganginn og varaði við aðferðinni að nota slík útspil sem skiptimynd á síðustu stundu.

„Stjórnvöld síðustu ár hafa hins vegar fremur unnið þannig að það þyngi samningsgerð – þau hafa hrifsað ávinning af launahækkunum, með frystingu persónuafsláttar og lækkun barna- og vaxtabóta, ekki bætt kjör aldraðra og öryrkja nægilega,“ sagði Logi og bætti við að tillögur Samfylkingar undanfarin fimm ár um hækkun bóta hefðu verið felldar af stjórnarmeirihluta hverju sinni.

Hrogn og súkkulaði passa ekki saman

„Stjórnmál verða að fara að snúast um framtíðarsýn; hvers konar samfélag er skynsamlegt og siðlegt og hvaða leið er að því marki. Ég veit að þar greinir okkur á. En þó það sé alveg ljóst að hrogn og súkkulaði eru hvort tveggja uppistaða í rétti - er ólíklegt að hráefnin henti í sömu uppskrift,“ sagði Logi. Hann bætti við að stjórnmál ættu ekki að vera huggulegur klúbbur þó að fólk eigi að geta sýnt hvað öðru kurteisi og sameinast um einstök góð mál.

Logi sagði að það þyrfti að stíga miklu róttækari skref í átt að jöfnuði. Það þyrfti að búa launafólki, öldruðum og öryrkjum fjárhagslegt öryggi og félagslegt svigrúm og gera velferðar- og heilbrigðisþjónustu ódýrari.

„Ungt fólk hefur til dæmis ekki notið uppgangs síðustu ára. Það hefur verið skilið eftir þrátt fyrir að vera lykillinn að framtíð okkar,“ sagði Logi. Hann sagði unga fólkið geta valið allan heiminn. „Við þurfum að bjóða þeim betri skilyrði til þess að þau hafi yfir höfuð áhuga eða efni á að búa á Íslandi.  

Mikill jöfnuður er lykillinn

Logi sagði að það yrði að gera grundvallarbreytingar, þar sem almannahagsmunir ráða en ekki þröngir sérhagsmunir. Það þyrfti að breyta gjaldtökum af sameiginlegum náttúruauðlindum, endurskoða landbúnaðarkerfið, efna loforð um nýja stjórnarskrá og vinna að upptöku evru með inngöngu í Evrópusambandið.

„Ísland er auðugt land og vandalaust að teikna meðaltöl sem sem sýna almenna velsæld. Munum samt að í skugga meðaltala leynast börn sem búa við skort, ungt fólk í fíknivanda, fjölskyldur á hrakhólum - fátækt fólk. Mikill jöfnuður er einmitt lykilinn að hamingjusömu, framsæknu og kraftmiklu samfélagi,“ sagði formaður Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert