Umhverfismál eitt af flaggskipunum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sér fyrir sér að umhverfis- og loftslagsmál verði eitt af flaggskipum utanríkisstefnu Íslands, rétt eins raunin sé þegar orðin varðandi jafnrétti kynjanna.

Þetta kom fram í stefnuræðu hennar á Alþingi í kvöld.

Þar minntist Katrín á fyrstu áfangana í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og sagði að straumhvörf hefðu orðið í fjárveitingum til umhverfismála. Einnig nefndi hún orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak yrði í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól.   

„Við Íslendingar höfum sett okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en 2040 og þessir fyrstu áfangar sýna gjörla að okkur er full alvara með því verkefni,“ sagði hún.

Réttur tími fyrir innspýtingu frá hinu opinbera

Í máli Katrínar kom fram að ríkisstjórnin hefði tekið það föstum tökum frá fyrsta degi að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu samfélagslegra innviða. Sú sókn haldi áfram í nýju fjárlagafrumvarpi sem sé langt umfram það sem nokkur stjórnmálaflokkur hafi boðað fyrir síðustu kosningar. Hún sagði réttan tíma vera fyrir innspýtingu frá hinu opinbera núna, þar sem spár gera ráð fyrir minni hagvexti á komandi árum.

Hún ræddi um endurskoðun peningastefnunnar og sagðist ætla að leggja fram frumvarp um breytt lög um Seðlabankann eftir áramót. Hvítbók um fjármálakerfið kemur jafnframt út í haust þar sem greint verður hvað hefur verið gert vel í þeim málum síðustu ár og hvað má gera betur.

Frá þingsetningu Alþingis.
Frá þingsetningu Alþingis. mbl.is/​Hari

Þurfa að slá í klárinn vegna jafnlaunavottunar

Katrín minntist á að Ísland hefði í níu ár í röð verið í efsta sæti á lista World Economic Forum sem það land sem stæði sig best í kynjajafnrétti. Það sé mikið ánægjuefni en ekki megi slaka á í þeim efnum. Nefndi hún sem dæmi að fyrirtæki og stofnanir þyrftu að slá í klárinn ef innleiðing jafnlaunavottunar ætti að nást fyrir áramót.

Minntist á Trump og tístin

Tíst Donalds TrumpsBandaríkjaforseta voru einnig gerð að umtalsefni í stefnuræðunni í tengslum við traust á meðal almennings á stjórnmálum og stjórnsýslu.

Katrín sagði ljóst að traustið hefði dvínað mikið eftir bankahrunið en það hefði þó farið heldur vaxandi án þess að jafnast á við það sem það var áður. Bætti hún við að líklega yrði traust á stjórnmálum og stjórnsýslu aldrei jafnmikið og það var skömmu fyrir hrun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Skipti mestu máli að komast í kvöldfréttirnar

Katrín sagði samfélagið hafa breyst með auknu upplýsingastreymi og að samfélagsmiðlar hefðu breytt stjórnmálaumræðunni á róttækan hátt.

„Okkur sem munum þá tíð þegar mestu skipti að komast í kvöldfréttirnar með það sem sagt var um morguninn, finnst þetta vera bylting þar sem fréttir morgunsins eru oft algjörlega gleymdar um kvöldið,“ sagði forsætisráðherra og bætti við að þegar slík umskipti yrðu á umhverfi fjölmiðla mætti rifja upp það sem haldið hefði verið fram um að miðlarnir sniðu skilaboðin að sér.

„Við sjáum þetta víða í nútímanum, jafnvel á sviði alþjóðasamskipta, þar sem valdamesti maður heims, sjálfur Bandaríkjaforseti, setur fram stefnu gagnvart öðrum ríkjum með 280 bókstöfum á Twitter. Eins og við þekkjum úr sögunni þá geta slík umskipti breytt miklu um valdajafnvægið í samfélaginu,“ sagði hún.

Alþjóðleg ráðstefna vegna #églíka

Einnig nefndi hún að ríkisstjórnin hefði sett það í algjöran forgang að takast á við kynbundið ofbeldi og sagði fullgildingu Istanbúlsáttmálans í vor um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi hafa verið mikilvægt skref í rétta átt.

Að sögn ráðherra hefur hópur sérfræðinga skilað af sér verkáætlun vegna baráttunnar gegn kynferðisofbeldi, auk þess sem haldin verður alþjóðleg ráðstefna á næsta ári þar sem fjallað verður um þann lærdóm sem má draga af #églíka-byltingunni.

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áskoranir vegna fjórðu iðnbyltingarinnar

Katrín sagði nýja miðla vera hluta af stærri mynd samfélagsbreytinga, hinnar svokölluðu fjórðu iðnbyltingar, þar sem mikilvægt væri að vera í farabroddi.

Kvaðst hún hafa ákveðið að láta vinna greiningu á áskorunum vegna fjórðu iðnbyltingarinnar og verður unnið með niðurstöður hennar hjá vísinda- og tækniráði, samráðsvettvangi um aukna hagsæld, aðilum vinnumarkaðarins og í nýrri framtíðarnefnd Alþingis.

Bjartsýn á samstöðu um breytta stjórnarskrá

Katrín gerði einnig að umtalsefni endurskoðun stjórnarskrárinnar sem er fyrirhuguð á þessu kjörtímabili og því næsta og sagði formenn stjórnmálaflokkanna hafa fundað nokkrum sinnum vegna þess.

„Þetta hafa verið góðir fundir og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að breið samstaða skapist um breytingar á stjórnarskrá sem vísa veginn til framtíðar fyrir íslenskt samfélag,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert