Blæbrigðamunur er á röksemdum ákæruvaldsins og verjenda fyrir sýknukröfu í endurupptöku á Guðmundar- og Geirfinnsmáli sem tekin eru fyrir í Hæstarétti í dag. Það er ein helsta ástæðan fyrir því að munnlegur málflutningur fer fram, en bæði ákæruvaldið og verjendur krefjast sýknu í málinu.
Málið er fyrir margar sakir óvenjulegt, ekki síst af því ákæruvaldið krefst einnig sýknu. Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í endurupptöku á Guðmundar- og Geirfinnsmáli, segir eðlilegt að menn velti því fyrir sér af hverju verið er að fara í munnlegan málflutning ef aðilar máls eru sammála um þá niðurstöðu sem þeir vilja sjá.
„Kjarninn í því er sá að við erum ekkert endilega sammála um öll smáatriði í rökstuðningi fyrir niðurstöðunni. Hitt er svo annað mál, að það er á valdi Hæstaréttar hvort sýknukrafan verður tekin til greina eða ekki. En að því gefnu að hann geri það þá greinir okkur á um rökin fyrir henni. Sá ágreiningur er ekki djúpstæður en hann er samt til staðar. Þess vegna er málið flutt í heyranda hljóði þannig allir geti heyrt það sem fram fer,“ segir Davíð í samtali við mbl.is, en hann flytur málið fyrir hönd ákæruvaldsins í Hæstarétti í dag.
Sýknukrafa ákæruvaldsins er bæði byggð á nýjum gögnum og endurskoðuðu mati á eldri gögnum sem gera það að verkum að ekki hefur tekist að sanna sekt svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa. „Það byggist á því að játningar og framburðir eru einu sönnunargögnin og þegar skoðað er ferlið hvernig þessar játningar voru fengnar og framburðirnir þá dugir það bara ekki til sakfellingar. Það er kjarninn í greinargerðinni,“ sagði Davíð í samtali við mbl.is í vor.
Guðmundar- og Geirfinnsmálið eru ein stærstu og umtöluðustu sakamál Íslandssögunnar. Þjóðin stóð á öndinni og fylgdist með framvindu þeirra á áttunda áratug síðust aldar. Fyrst hvarfi tveggja karlmanna og svo því hvernig sex ungmenni voru dregin til ábyrgðar og fundin sek um að hafa banað þeim, þrátt fyrir að ekkert lík hafi fundist og skort á áþreifanlegum sönnunargögnum. Þá var enginn staðfestur brotavettvangur til staðar og framburður bæði sakborninga og vitna þótti óáreiðanlegur.
Guðmundur og Geirfinnur Einarssynir hurfu báðir sporlaust árið 1974, annar í janúar og hinn í nóvember. Ungmennin sex; Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson, Guðjón Skarphéðinsson, Albert Klahn Skaftason og Erla Bolladóttir, voru öll sakfelld í Hæstarétti árið 1980, fyrir aðild að hvarfi þeirra en hún var þó talin mismikil.
Sævar var ákærður fyrir að bana báðum mönnunum, Guðmundi og Geirfinni og hlaut þyngstan dóm í málinu, eða 17 ára fangelsi. Kristján Viðar var ákærður fyrir að bana Geirfinni og hlaut sextán ára dóm. Tryggvi Rúnar var dæmdur fyrir að hafa banað Guðmundi og hlaut 13 ára dóm. Guðjón var ákærður fyrir að bana Geirfinni og fékk tíu ára dóm. Albert var ákærður fyrir að tálma rannsókn og fékk tólf mánaða dóm. Erla Bolladóttir var dæmd fyrir aðild að hvarfi Geirfinns og fyrir að bera rangar sakargiftir upp á fjóra menn. Hún hlaut þriggja ára dóm.
Endurupptökunefnd féllst í febrúar á síðasta ári á endurupptökubeiðni allra dómfelldra í málinu nema Erlu Bolladóttur, en um er að ræða umfangsmesta endurupptökumál sem nefndin hefur fengið í hendurnar. Var það mat endurupptökunefndar að Erla hefði ekki sýnt fram á skilyrði laga um meðferð sakamála til að skilyrðin til endurupptöku væru uppfyllt. Beiðnir um endurupptöku voru lagðar fram af hálfu dómfelldu í málinu og ættingjum Sævars og Tryggva, en þeir eru báðir látnir.
Með ákvörðun um endurupptöku fór málið, lögum samkvæmt, á sama stað og ef áfrýjunarstefna hefði verið gefin út, en endurupptakan snýst um að endurtaka beri meðferð málsins fyrir Hæstarétti sem gert verður í dag.
Sævar hafði áður leitað eftir endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti, árið 1994, en settur ríkissaksóknari lagði þá til að beiðninni yrði hafnað. Í febrúar árið 1997 lagði talsmaður Sævars svo fram greinargerð fyrir Hæstarétt þar sem þess var krafist að málið yrði endurupptekið. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu síðar sama ár að skilyrðum til endurupptöku væri ekki fullnægt. Það fékkst þó viðurkennt fyrir dómi að Sævar hefði sætt harðræði í gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu. Hann sat í gæsluvarðhaldi í rúm tvö ár, þar af 615 daga í einangrun, en slík einangrunarvist átti sér enga hliðstæðu hér á landi.
Sævar lést í júlí árið 2011. Eftir andlátið stigu ættingjar hans fram og rifjuðu upp þrotlausa baráttu hans fyrir því að málið yrði tekið upp aftur. Baráttu fyrir réttlátri málsmeðferð. Settur var þrýstingur á endurupptöku og skriður komst á málið. Í október sama ár skipaði innanríkisráðherra starfshóp um Guðmundar- og Geirfinnsmál sem falið var að fara yfir málið í heild, en sérstaklega þá þætti sem lytu að rannsókninni og framkvæmd hennar. Sama ár var það niðurstaða könnunar MMR að 82 prósent landsmanna væru hlynnt því að Guðmundar- og Geirfinnsmálið yrðu tekin upp á ný fyrir dómstólum.
Í mars 2013 skilaði starfshópur innanríkisráðherra skýrslu þar sem kom fram að veigamiklar ástæður væru fyrir því að taka málin upp að nýju. Einkum í ljósi afdráttarlausrar niðurstöðu sálfræðilegs mats að framburðir sakborninganna hafi verið óáreiðanlegir. Í kjölfarið var settur saksóknari fenginn til að skila áliti til endurupptökunefndar og varð niðurstaðan að lokum sú að fimm beiðnir af sex voru samþykktar.
Dómarar í endurupptökumálinu eru hæstaréttardómararnir: Þorgeir Örlygsson, forseti réttarins, Greta Baldursdóttir, Helgi Ingólfur Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.